139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[15:06]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir spurningarnar og vona að ég nái að komast yfir að svara þeim hér.

Varðandi fyrstu spurninguna, um hvort um verðmæti sé að ræða sem verði eins og kvótinn í sjávarútvegi, er það svo að losunarkvóti safnast ekki upp, honum er úthlutað til eins árs í senn og til þess að fá áframhaldandi úthlutun þarf að uppfylla skilyrði um starfsemi. Ef starfsemi er hætt fá fyrirtækin ekki úthlutað frekar.

Í öðru lagi spyr þingmaðurinn um það sem hann kallaði neikvæða losun sem er þá binding vegna landgræðslu eða skógræktar eða slíkra leiða. Það er ekki fjallað um það sérstaklega í því frumvarpi sem hér er mælt fyrir.

Varðandi spurninguna um hvort þetta fyrirkomulag skapi aukinn þrýsting á Ísland til stóriðju eða aukinnar álframleiðslu, þá er það ekki svo, það er um miðlæga úthlutun losunarheimilda að ræða. Íslenskir framleiðendur sitja í raun og veru við sama borð og aðrir í Evrópu að því er varðar aðkomu að heimildum eða markaðnum með heimildir. Það er því ekki á valdi eða ákvörðun íslenskra stjórnvalda með hvaða hætti það er gert heldur hvers fyrirtækis fyrir sig hvernig það er búið að þessu borði.

Ég hef sjálfsagt misst af einhverjum spurningum hv. þingmanns en hann ítrekar það væntanlega í seinna andsvari.