139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[15:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þeir landsmenn sem virkilega trúa á hitnun jarðar ættu nú að sakna þess að hér sé ekki talað um neikvæðu losunina, þ.e. það sem menn geta unnið gegn koldíoxíðlosun með ræktun skóga, ræktun grass og annars slíks. Ég minni á að grasið vex á Íslandi dag og nótt á sumrin öndvert við annars staðar í heiminum á flestum stöðum, (Gripið fram í.) á vissum tíma. Ég skora því á hæstv. ráðherra að koma þeirri heimild strax í umferð eða mynda markað með hana.

Síðan er það spurningin, ef ég skildi rétt — segjum að hér yrðu einhverjar framkvæmdir en það þyrfti væntanlega nýja ríkisstjórn til þess — segjum að það yrðu einhverjar virkjanir og framkvæmdir, hvort sem það er netþjónabú eða hvað það nú er, sem væru í samkeppni við netþjónabú í London þar sem raforkan er framleidd með brennslu kola og gass, ég þekki það ekki nákvæmlega en alla vega er mikið framleitt þar af rafmagni með brennslu jarðefna: Skiptir það engu máli? Getur verið að menn njóti þess ekki að nota hér á Íslandi hreina orku sem ekkert mengar og skapar ekki hitnun jarðar? Ef svo er er eitthvað mjög undarlegt við þetta koldíoxíðlosunarkerfi og markað með það og ég mundi þá skora á hæstv. ráðherra að koma þeim skilaboðum frá mér til Brussel að menn þurfi að hugsa sinn gang.