139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[15:12]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Nokkur orð til að fagna þessu frumvarpi. Það er fagnaðarefni en um leið auðvitað gjörsamlega sjálfsagt því að með því eru álbræðslur og flugstarfsemi á Íslandi, skulum við segja, sett inn í viðskiptakerfi Evrópusambandsins og bandalagsríkja þess um losun, það sem kallað er ETS með skammstöfun. Flugið kemur inn í ársbyrjun 2012, sem er eftir átta mánuði, og álið svo í ársbyrjun 2013 þannig að ekki er seinna vænna að ganga í þetta löggjafarverk. Mér virðist við fyrstu sýn að frumvarpið sé vel úr garði gert og í samráði við helstu haghafa þannig að Alþingi og umhverfisnefnd þess ætti að geta unnið þetta hratt.

Mig langar í framhaldi af ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals, sem hófst með spurningunni um hvort hér væri um verðmæti að ræða, að lýsa þeirri skoðun minni að hér er vissulega um verðmæti að ræða. Það er þannig að við eigum að láta borga gjald fyrir þá mengun sem óhjákvæmileg er í þessu efni.

Mig langar líka að spyrja hæstv. umhverfisráðherra að því hver ætlunin sé eða hverjar hugmyndir hennar séu um tilhögun losunarheimilda fyrir flugstarfsemi sérstaklega þar sem í Evrópusambandinu eða í gerðinni er kveðið á um að 85% losunarheimilda eigi að veita endurgjaldslaust en 15% þeirra eigi að bjóða upp þannig að þar fæst fé fyrir verðmæti. Ég hefði viljað hafa hlutföllin aðeins öðruvísi en svona er þetta a.m.k. í bili. Það fé á að renna í ríkissjóð en það er mælst til þess í Evrópugerðinni að það renni til loftslagsmála. Nú vil ég vita hvaða hugmyndir eru uppi um þetta efni og hvenær ákvörðun um það verður tekin og með hvaða hætti.