139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[15:22]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir góða og gagnlega umræðu. Varðandi spurningar sem fram komu í máli hv. formanns umhverfisnefndar, Marðar Árnasonar, er rétt að geta þess að tilhögun heimilda fyrir flugi, þ.e. að gert er ráð fyrir að 15% kostnaðarins eða teknanna, ef svo má segja, renni í ríkissjóð er gert ráð fyrir að sú fjárhæð sé m.a. notuð til að standa straum af rekstrinum til að halda kerfinu áfram. En það er vilji og skilningur ríkisstjórnarinnar á því að þær tekjur sem skapast þarna renni að hluta til loftslagsvænna aðgerða eins og gert er ráð fyrir, enda verður að vera eitthvert samspil þar á milli.

Hv. þm. Pétur Blöndal ræddi vítt og breitt um orku og auðlindamál og atvinnumál raunar líka og ég er sammála honum um það. Hefur það raunar komið fram í máli þeirrar sem hér stendur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að ál er orðinn of stór hluti af útflutningsatvinnuvegum þjóðarinnar og það er ljóst út frá svo mörgum sjónarmiðum en kannski fyrst og fremst út frá efnahagslegum sjónarmiðum hjá hv. þingmanni.

Ég vænti þess að hv. umhverfisnefnd taki málið til skoðunar. Þetta er nokkuð tæknilegt mál eins og það er fram sett þannig að það er ekki víst að það verði mjög skapandi fundir í kringum vinnsluna á frumvarpinu en ég treysti nefndinni til þess að leiða það farsællega til lykta.