139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

námsstyrkir.

734. mál
[15:51]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir breytingum á lögum um námsstyrki, nr. 79/2003.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu hafa á undanförnum árum borist ábendingar um nauðsynlegar endurbætur á þessum lögum og mun ég nú fara yfir nokkur dæmi um þær.

Fyrst ber að nefna að rætt hefur verið í þinginu m.a. um að þeir nemendur sem stunda háskólanám en eru undir 18 ára aldri eiga ekki kost á námslánum, enda ekki fjárráða, en þeir hafa heldur ekki rétt á námsstyrkjum. Rætt hefur verið hvort hugsanlega mætti skoða lögin um námsstyrki út frá hagsmunum þessara nemenda sem eru kannski ekki margir en fjölgar vonandi á næstu árum.

Í öðru lagi hefur verið bent á nemendur sem stunda framhaldsskólanám við sérhæfða íþrótta- og listdansskóla fyrir afreksfólk á erlendri grundu, t.d. við Konunglega sænska listdansskólann í Stokkhólmi, en eiga ekki kost á námsstyrkjum þar sem lögin eru bundin við framhaldsskólanám sem fram fer hér á landi.

Í þriðja lagi má nefna að flóttamenn hafa ekki notið námsstyrkja hingað til sökum áskilnaðar í lögum um íslenskt ríkisfang.

Þá hafa komið fram ábendingar frá námsstyrkjanefnd um að setja þurfi aldurshámark fyrir styrkþega og að rétt væri að fækka nefndarmönnum úr fimm í þrjá.

Í athugasemdum með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 79/2003 er því markmiði lýst að leitast skuli við að tryggja öllum jöfn tækifæri til náms án tillits til búsetu eða efnahags, þar á meðal erlendum ríkisborgurum á grundvelli alþjóðlegra skuldbindinga. Réttur til námsaðstoðar er nátengdur réttinum til að njóta almennrar menntunar eins og honum er lýst í 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, auk þess sem hans er getið í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna.

Í athugasemdum við frumvarpið er lýst möguleikum erlendra ríkisborgara og flóttamanna til að hljóta námsstyrki að teknu tilliti til túlkunar framangreindra réttarheimilda. Niðurstaðan er sú að ekki þurfi að gera breytingar á lögunum í þágu EES-ríkisborgara og flóttamanna.

Þá er gerð grein fyrir þeim réttindum sem fylgja samningi um norrænt menntunarsamfélag á framhaldsskólastigi.

Helstu breytingar sem lagðar eru til samkvæmt frumvarpinu eru eftirfarandi:

Að gildissvið laganna nái til náms á háskólastigi fyrir þá nemendur sem ekki hafa náð 18 ára aldri.

Að heimilt verði að veita námsstyrki til framhaldsskólanáms sem stundað er erlendis ef um er að ræða nám sem ekki verður stundað frá lögheimili hér á landi. Er þá vísað aftur til þess að um sé að ræða sérhæft nám, til að mynda fyrir afreksfólk á ólíkum sviðum.

Að nefndarmönnum í námsstyrkjanefnd verði fækkað um tvo, úr fimm í þrjá.

Á vinnslustigi frumvarpsins var haft samráð um efni þess við námsstyrkjanefnd jafnframt því sem tekið var tillit til ábendinga frá umboðsmanni barna.

Ég nefndi að við hefðum fengið ábendingu um aldurshámark fyrir styrkþega og fyrirhugað er að lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna verði endurskoðuð. Skipuð verður nefnd í því samhengi þar sem kallaðir verða til m.a. fulltrúar stúdenta og fulltrúar lánasjóðsins auk embættismanna og verður haft samráð við hagsmunaaðila. Þar verður fjallað um skil milli lánshæfs náms á framhaldsskólastigi og háskólastigi og tengsl laganna við lög um námsstyrki. Ég tel því ekki rétt að setja reglur um aldurshámark að svo stöddu af því að mér finnst mjög mikilvægt að þessi lög fari saman hvað það varðar þannig að við útilokum ekki neinn frá framhaldsskólanámi.

Ég held að það sé ekki ástæða til að hafa fleiri orð um þetta frumvarp sem skýrir sig að mestu leyti sjálft, en vænti þess, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. menntamálanefndar.