139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

námsstyrkir.

734. mál
[15:56]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar er markmið þess að auka jafnræði fólks til náms á framhalds- og háskólastigi.

Að efla opinbera styrki og ná góðu jafnvægi milli fjárhagsaðstoðar í formi námslána og námsstyrkja getur verið leið til að bæta jafnræði í aðgengi að háskólamenntun. Vísbendingar eru um að námsstyrkir kunni að vera gagnlegri en lán til að hvetja námsmenn með lakan félagslegan bakgrunn til að halda áfram námi þótt lán kunni að virka betur fyrir námsmenn með annan félagslegan bakgrunn.

Grunnregla í íslensku menntakerfi í dag er að allir hafi jafna möguleika til náms óháð kyni, efnahag, búsetu og menningarlegum og félagslegum bakgrunni. Af því tilefni er gaman að rifja örlítið upp söguna, sérstaklega með konur og jafnrétti til náms í huga því að á Íslandi var réttur kvenna til menntunar takmarkaður allt fram til ársins 1911. Konur voru ekki taldar þurfa á annarri menntun að halda en þeirri sem átti við þeirra hefðbundu félagslegu stöðu og hæfileiki þeirra til að mennta sig var talinn afar takmarkaður. Möguleikar kvenna á því sviði fólust í kennslu í sérstökum stúlknaskólum og húsmæðraskólum. Kennslan fólst í leiðsögn í hefðbundnum verkefnum kvenna, heimilisfræðum, umönnun og hjúkrun.

Fram yfir aldamótin 1900 var aðgangur kvenna að æðri menntastofnunum takmarkaður og af því að hér er fjallað um námsstyrki fengu konur ekki slíka styrki og þeim var ekki heimilt að gegna opinberum embættum að námi loknu. Það var ekki fyrr en árið 1911 að konur fengu sama rétt og karlar til menntunar og próftöku í öllum menntastofnunum landsins. Þá fengu þær einnig jafnan aðgang að styrkjum ásamt heimild til að gegna opinberum embættum.

En aftur til nútíðar. Eftir að sjálfræðisaldurinn var færður í 18 ár hefur eðli málsins samkvæmt þeim nemendum sem ekki eru lögráða og þá ekki fjárráða fjölgað í háskólum. Margir þessara nemenda þurfa að vera fjarri heimahögum og því fylgir ærinn kostnaður eins og margir, sérstaklega landsbyggðarþingmenn, þekkja á eigin skinni. Sú breyting sem hér er lögð til, að nemendur þurfi ekki að hafa náð 18 ára aldri í háskóla til að geta fengið styrk, er því mikið réttindamál.

Framhaldsskólarnir eiga að bjóða upp á menntun sem hentar þörfum hvers og eins. Stór hluti unglinga eða 95% fer beint í framhaldsskóla að loknum grunnskóla og er þar að jafnaði í þrjú, fjögur ár. Á þessum árum tekur ungt fólk út mikinn þroska og þeir sem þar starfa leiðbeina þeim eftir bestu getu. Þar eru náms- og starfsráðgjafar mikilvægur hlekkur. Ég er sérstaklega ánægð með áhersluna í frumvarpinu á afreksfólk okkar, t.d. í íþróttum og nemendur í listgreinum. Þó að það séu ekki margir sem munu fá að njóta slíkra styrkja efast ég ekki um að þeir muni koma sér afar vel fyrir þá sem þá þiggja. Í sveitarfélagi mínu leggur hinn nýi menntaskóli á Tröllaskaga einmitt mikla áherslu á íþróttir og útivist þar sem afreksfólki er gert kleift að stunda nám sem miðar að þörfum þeirra. Einnig er lögð mikil áhersla á fagurlistir og því er ánægjulegt að geta greint frá því að þeir geti átt kost á styrkjum hyggist þeir fara til útlanda til að sinna íþrótt sinni eða listgrein. Því vona ég að þessi breyting á lögunum nái fram að ganga í þinginu.