139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

grunnskólar.

747. mál
[16:13]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferð þessa frumvarps um breytingar á lögum um grunnskóla, nr. 93/2008, með síðari breytingum.

Ég vil byrja á að fagna 1. gr. þar sem kveðið er á um að áður en barni er komið í fóstur beri barnaverndarnefnd að kanna hvernig viðkomandi grunnskóli á svæðinu er í stakk búinn til að taka við nemandanum eða barninu sem sett er í fóstur. Við þekkjum að oft hefur það valdið töluverðum deilum á milli sveitarfélaga ef slíkt barn hefur þurft á að halda sértækri sérkennslu eða einhverju áþekku, vegna hegðunarvanda hugsanlega eða einhverra annarra aðstæðna, að sveitarfélög hafa tekist á um hver eigi að greiða slíkt. Ég fagna því að réttur barnsins sé hér settur í forgang og það sé tryggt áður en barni er komið í fóstur að sé það á grunnskólastigi eigi það rétt á viðeigandi þjónustu í grunnskóla í því sveitarfélagi þar sem það fær lögheimili til lengri eða skemmri tíma.

Ég er hins vegar ekki jafnsátt við 2. og 7. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að heimilt sé, með rökstuddri greinargerð, og vísað er í fámenna skóla og þá hugsanlega fámenn sveitarfélög, að starfrækja ekki skólaráð og nemendaverndarráð. Mér finnst það ganga eiginlega í berhögg við 6. gr. þar sem jafnframt er talað um skólabrag og að öllum aðilum skólasamfélagsins, sem er þá samfélagið allt, beri að leggja sitt af mörkum til að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag.

Með tilkomu skólaráða var lýðræðisleg aðkoma að ákvarðanatöku í skólum aukin og oft hefur um það verið deilt að foreldrar og aðrir utan skólasamfélagsins en skólastjórnendur, kennarar og starfsfólk skóla ráði of miklu um það sem fram fer og inni er. En þó að sveitarfélögin séu fámenn finnst mér vart viðunandi að fella þetta út úr grunnskólalögum eða veita heimild til undanþágu ef við ætlum samhliða því að stuðla að réttindum barns og auka vernd og allt í þá veru að fækka þeim sem koma að því að taka ákvarðanir um skólasamfélagið sem slíkt. Ekki síður tel ég þetta varhugavert varðandi nemendaverndarráðið vegna þess að þar koma að og hafa fleiri komið að fleiri en eingöngu aðilar innan skólans. Oftar en ekki á sæti í nemendaverndarráði fulltrúi hugsanlega úr félagsmálanefnd sveitarfélags eða fjölskyldunefnd sveitarfélags sem þekkir þá til og hægt er að svo miklu leyti sem það er heimilt að skiptast á upplýsingum um einstaklinga og einstök börn. Þar sem sveitarfélög eru smá hafa þau oftar en ekki gert samning hugsanlega við stærri sveitarfélög um ýmis barnaverndarmál og annað í þeim dúr og ættu þá t.d. að vera hæg heimatökin að semja líka um að þeir aðilar sitji í nemendaverndarráði ásamt skólastjórnendum, sérkennurum og öðrum sem þar að jafnaði sitja til að tryggja að betur sjá augu en auga í því að koma að lausnum sem varða einstaka nemendur.

Þetta tvennt, að veita heimild til að starfrækja ekki nemendaverndarráð og starfrækja ekki skólaráð, finnst mér vera afturför og mér finnst það afar slæmt. Þó svo að um fámenn sveitarfélög sé að ræða eiga flest barnanna þar jú foreldra og það mætti líta á þetta sem samfélagsskyldu og er áreiðanlega ekki til íþyngingar fyrir þá sem þar sitja. Ég geld því varhuga við þessum tveimur greinum og þeirri heimild sem þar er veitt. Sérlega geri ég það hvað varðar 7. gr. Eins og þetta er sett fram í núverandi grunnskólalögum virkar þetta vel og það hlýtur að vera hægt fyrir fámenna skóla og fámenn sveitarfélög að leysa þetta með öðrum hætti en að senda inn rökstudda beiðni um að hafa ekki nemendaverndarráð. En ég vænti þess að þrátt fyrir að flestir séu sammála því, umsagnaraðilar sem hafa komið að þessu frumvarpi, muni hv. menntamálanefnd fara verulega ofan í saumana á þessum tveimur greinum og kanna hvað liggur að baki því annað en fámennið að ekki er hægt að starfrækja skólaráð annars vegar og nemendaverndarráð hins vegar.

6. gr. frumvarpsins er nýmæli. Hún hefur kannski verið óskrifuð fram til þessa í skólasáttmálum en innihald og megintilgangur þessarar greinar hefur komið fram í skólastefnu. Hann hefur a.m.k. komið fram í störfum margra skóla en það er kannski af hinu góða að það sé bundið í lög að okkur beri að leggja okkar af mörkum en þá komum við alltaf að því: Hvað svo? Hvernig ætlum við að tryggja þetta? Vissulega geta allir verið sammála um 6. gr. og að hún skuli færast inn sem 30. gr. laganna og orðast þannig ásamt fyrirsögn. Sjálfsagt er enginn grunnskóli sem ekki hyggst starfa samkvæmt því sem þarna er sagt.

Ég fagna því í raun að það skuli vera bundið í lög með orðum sem þessum að skólafólki beri og skólasamfélaginu öllu að taka þátt. Ég held að það sé afar mikilvægt, frú forseti, að það standi þarna „öllum aðilum skólasamfélagsins“, sem eru í raun og veru allir sem koma að grunnskólum í hverju og einu sveitarfélagi. Flestir íbúanna eiga eða hafa átt og munu eiga einhverja tengingu inn í skólann. Samfélagið allt ber því ábyrgð á að viðhalda og styrkja góða skóla í sínu nærsamfélagi og flestir þekkja að það skiptir afar miklu máli.

Frú forseti. Ákvæði til bráðabirgða sem hér er og tengist rétti grunnskólanema til að stunda nám á framhaldsskólastigi fjallar um frest eins og okkur er kunnugt til 1. ágúst 2013. Ég hef áður látið í ljós óánægju mína með þetta vegna þess að mér hefur þótt þetta vera stór þáttur í því sem við höfum oft rætt um sem eru sveigjanleg skólastig. Ég hefði oft kosið að í stað þess að menn ræði um að falla frá einhverju ræði menn frekar um hvernig við getum horft á skólastigin, leikskólann, grunnskólann og framhaldsskólann a.m.k. upp að 18 ára aldri, hvernig við getum sveigt á milli og gefið börnum betra tækifæri. Okkur er tíðrætt um einstaklingsbundið nám en við erum enn þá jafnföst í því að aldurinn eigi alltaf að ráða hvar einstaklingur er staddur í skólasamfélaginu, að 10 ára gamall nemandi eigi að vera í 5. bekk. Þá er ekki spurt hvort hann hafi hæfni eða þroska til þess eða hvort hann hafi þroska til að vera í 6. bekk eða jafnvel í 7. bekk, hann á að vera í 5. bekk af því að hann er 10 ára. Hann gæti líka verið þeim eiginleikum búinn að hafa ekki almennan þroska 10 ára barns og þyrfti kannski að vera í 4. bekk eða jafnvel 3. bekk. Okkur er allt of tíðrætt um aldur og beintengingu við stig innan skólanna í stað þess að horfast í augu við að nemendur, börnin, hvort heldur í leikskóla, grunnskóla eða framhaldsskóla eru eins misjöfn og þau eru mörg og þau eru misfær um að takast á við þau verkefni sem hvert skólastig býður upp á. Fyrr eða seinna þurfum við að fara að horfa til þess en ekki niðurnjörvunar skólastiga beintengt aldri.

Ég er því enn jafnósátt við þetta fyrirkomulag varðandi grunnskólanemendur sem eiga ekki þann rétt sem talað var um í lögunum sem sett voru 2008, um að þau hefðu rétt og ættu tækifæri á þessum, eins og við orðum það oft, sveigjanlegu skólastigum. Menn segja að það sé vegna þess að við eigum ekki peninga, við höfum lent í hruni og séum í kreppu og allt það. Við erum öll sammála um það. Hins vegar hefur það verið mín bjargfasta skoðun og er enn að í kreppu á maður að forðast að skera niður menntun. Ég hef því ekki verið sátt við óskir einstakra sveitarfélaga um fækkun á lögbundnum kennslustundum í grunnskóla og viljað horfa til þess að hægt sé að gera ýmislegt annað en fækka lögbundnum stundum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi komið til umræðu í samræðum á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélaganna og hugsanlega Kennarasambandsins, af því að okkur er tíðrætt um hvar við stöndum miðað við OECD-löndin, að það hefur komið glögglega í ljós að kennsluskylda eða viðvera kennara með nemendum er minnst í íslenskum grunnskólum. Ég held að hún sé 37,8% eða þar um bil, hún er a.m.k. vel undir 40%. Hefur það komið til tals og hefur verið reiknað í raun hvað það þýðir ef þessum þætti yrði breytt samsvarandi við það sem gerist í OECD-löndunum og þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við? Okkur er tíðrætt um gott gengi Finna og við höfum rætt það í tengslum við menntun kennara hvort við eigum að horfa til þess hvernig Finnar fara að. Hefur verið skoðað með hvaða hætti þeir vinna þetta verkefni, hver er kennsluskylda kennara í Finnlandi, hvað kostar það og hvað kostar það okkur ef við förum í uppstokkun á kjarasamningum kennara? Hefur það yfir höfuð verið rætt? Nú eru samningar lausir þar eins og alls staðar annars staðar. Ég geri mér fulla grein fyrir því að breyting á því fyrirkomulagi sem er á núgildandi kjarasamningum kennara kostar en ég tel að það sé hægt að kosta ýmsu til til að endurskoða og fara í saumana á þeim þætti og þá með heildarskólakerfið í huga, hvort heldur það er leikskólinn, grunnskólinn, framhaldsskólinn og/eða háskólinn.

Virðulegi forseti. Ég mun beita mér fyrir því í hv. menntamálanefnd að þessar greinar, 2. gr. og 7. gr., verði skoðaðar sérstaklega vegna þess að ég óttast það sem þar er fram sett. Ég fagna hins vegar 3. gr. með skólasöfnin og finnst það af hinu góða að í grunnskólum eigi að gera ráð fyrir skólasafni sem bæði hefur á að skipa rafrænum bókum og öðrum bókum og annars konar upplýsingakerfi fyrir grunnskólanemendur sem þurfa að læra að sækja sér upplýsingar og læra að nýta sér þá tækni og þekkingu sem til er í samfélaginu. Ég hlakka því til að fást við þetta frumvarp, virðulegi forseti, í hv. menntamálanefnd.