139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

grunnskólar.

747. mál
[16:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Mig langar að fara í nokkur atriði sem hér hafa verið nefnd. Í fyrsta lagi langar mig að nefna ábendingar hv. þm. Bjarkeyjar Gunnarsdóttur um valáfanga.

Eins og ég kom mjög stuttlega að í máli mínu áðan þá er val á unglingastigi mjög mikið, það er þriðjungur í lögum. Skólar hafa átt erfitt með að uppfylla þann þriðjung og því miður er tilhneigingin sem við sjáum, og einnig þær ábendingar sem við fáum frá skólastjórnendum, sú að nemendur velja fyrst og fremst bóklega áfanga í þessu vali þannig að fjölbreytnin hefur ekki endilega skilað sér með auknu vali. Það er ástæðan fyrir því að við leggjum til ákveðna heimild til að skólastjórar geti bundið þetta val þannig að það sé ákveðin breidd, þ.e. að nemendur geti ekki valið sig algerlega frá lista- og verkgreinum á unglingastigi. Það er hugmyndafræðin á bak við það, þ.e. að við séum að tryggja inni í þessari grunnmenntun, skólaskyldumenntun, fjölbreyttan grunn og nemendur velji sig ekki eingöngu í átt til samræmdra bóklegra faga.

Þó við minnkum valið niður í 15 þá erum við samt með meira val en almennt gerist í löndum OECD þannig að við teljum að þarna skapist ákveðið svigrúm til að ná þeim miðlægu áherslum sem kallað er eftir, og ég nefndi siðfræðikennsluna áðan. En í ljósi þess að við erum að fara af stað með nýja námskrá með fimm grunnþáttum — sköpun er einn af þeim grunnþáttum — legg ég áherslu á list- og verkgreinar, að ungmennum sé tryggð einhver menntun í því. Læsi er einn af þessum grunnþáttum líka og það tengist, eins og ég nefndi áðan, bókasöfnunum, upplýsingalæsi og miðlalæsi sem er eitt af því sem við sjáum að er kannski vanrækt í hinni hefðbundnu lestrarkennslu. Ekki endilega á línuna, að sjálfsögðu er fagfólk á mörgum stöðum að gera góða hluti með það, en að allir fái þessa undirstöðumenntun í því sem við getum kallað miðlalæsi. Síðan er það lýðræðismenntun sem líka hefur verið kallað eftir þannig að það er spurning hvort þarna skapist ákveðið svigrúm til að innleiða þessa grunnþætti. Ég nefni líka jafnréttismenntun, sem hefur verið lögbundin frá árinu 1976, en hefur því miður ekki verið sinnt eins og við hefðum viljað, og menntun til sjálfbærni.

Mig langar síðan að nefna, út frá þeim athugasemdum sem hv. þingmenn Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Bjarkey Gunnarsdóttir komu með, 2. og 7. gr. Það liggur fyrir, eins og kom fram í máli mínu, að við leggjum þetta til í ljósi ábendinga sem hafa komið frá skólum með færri en 20 nemendur. Ef hv. menntamálanefnd færi yfir málið, sem ég teldi mjög gott, er í sjálfu sér hægt að endurskoða það ákvæði sem hér er lagt til þannig að heimild sé veitt fyrir annarri samsetningu skólaráða og nemendaverndarráða. Núverandi samsetning er bundin í lögum og það er það sem veitist þessum fámennu skólum erfitt.

Í greinargerð, þar sem þessi möguleiki er líka reifaður, kemur líka fram sú hugsun að þetta sé tímabundin undanþága en ég legg það í hendur hv. menntamálanefndar að meta hvaða leið er best fær í þessum efnum. Ég get tekið undir það að þessi ráð hafa verið mjög mikilvæg fyrir rétt nemenda. Við höfum verið að fylgjast með innleiðingunni og yfir 90% skóla eru búnir að koma þessu á laggirnar. Aðrir eru að undirbúa stofnun þeirra og þetta er örlítill hluti skóla sem eru að gera þessar athugasemdir og þá er hugsanlegt að finna útfærslu sem miðast við breytta samsetningu, að hægt sé að heimila breytta samsetningu eða eitthvað slíkt. Ég legg það í hendur nefndarinnar að fara yfir það og það er þá í sjálfu sér úrlausnarefni hvernig það verður sem best leyst.

Mig langar að nefna skil skólastiga. Við ræddum á dögunum um ýmsa þætti sem tengjast skilum á milli skólastiga, meðal annars hina nýju kennaramenntun. Eins og hún er skipulögð í Háskólanum á Akureyri er beinlínis verið að miða við gagnfræðastigið, eins og það hét einhvern tíma, og framhaldsskólastigið saman, í kennsluháttum, leikskólastig og yngstu bekki grunnskóla saman og síðan stigið þar mitt á milli. Þar er markvisst verið að fara yfir skólastig. Hjá menntavísindasviði Háskóla Íslands er þessi hugsun líka inni með sveigjanleg mörk skólastiga þó að ég hafi ekki nákvæmlega yfirsýn yfir hvort þar er nákvæmlega sama hugsun á bak við en þetta á að lita kennaranámið enda var þetta eitt af meginmarkmiðum laganna frá 2008.

Mig langar líka að nefna það sem hv. þingmenn hafa nefnt með nám 10. bekkinga í framhaldsskólum, og ég fór auðvitað yfir það í ræðu minni. En mig langar að nefna það að þetta hefur tekist hvað best í þeim sveitarfélögum þar sem samskipti grunn- og framhaldsskóla eru mikil. Í rannsókn sem Gerður G. Óskarsdóttir, fyrrverandi fræðslustjóri í Reykjavík, gerði á því hvernig þetta hefði nýst í Reykjavík, kom á daginn að einungis 30% af þessum áföngum voru metnir upp í framhaldsskóla. Það sem var auðvitað merkilegt og kom manni á óvart var að þar sem samskiptin er góð milli grunn- og framhaldsskóla er þetta metið upp og verður sjálfsagður hluti af skólastarfinu en á höfuðborgarsvæðinu virðast framhaldsskólar hafa tekið sér sjálfdæmi um að meta hvort þeir yfir höfuð meti þessa áfanga eða ekki. Það er eiginlega verkefni okkar að skoða þetta og tryggja að þessir áfangar verði metnir upp í framhaldsskólann og að það sé þá einhver rammi utan um það. Mig langaði að koma þessu að hér því ég held að í raun hafi verið almenn ánægja með þetta og við höfum sérstaklega fundið það í þeim sveitarfélögum þar sem eru góð og mikil samskipti milli grunnskólanna og framhaldsskólanna.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir ræddi aðeins um kostnaðinn við grunnskólana, kennsluskylduna og kjarasamninga. Kennsluskyldan og kjarasamningar komu svo sannarlega til umræðu í samtali okkar og sveitarfélaganna, greinargerð um kostnað við rekstur grunnskóla hefur verið birt á heimasíðu sambandsins og menntamálaráðuneytisins og þar kemur þetta meðal annars fram og einnig athugasemdir Kennarasambands Íslands við þá greinargerð, en hún var unnin af óformlegum vinnuhóp sambandsins og mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Það er margt sem útskýrir kostnað við rekstur grunnskóla á Íslandi. Við erum strjálbýlt land með marga fámenna skóla. Við erum með hærri stofnkostnað en víðast hvar annars staðar. Mér finnst það eitthvað sem við ættum að velta fyrir okkur, hvort við leggjum stundum of mikið í byggingar og búnað og ekki nægjanlega mikið í annað. Á sama tíma eru kennarar með tiltölulega lág laun og lága kennsluskyldu Það var rætt í þessari greinargerð og kom svo sannarlega upp á borðið í viðræðum okkar við sveitarfélögin. Í þeirri umræðu sem á sér stað á alþjóðavettvangi og nú síðast á fundi í New York — ég gat því miður ekki sótt hann sökum anna, meðal annars í þinginu, en okkur var boðið á hann sem þjóð á uppleið í PISA — kom fram það mat þeirra fræðimanna sem um málið hafa fjallað að kennarar væru lykilverkfærið að góðu skólastarfi. Hægt væri að hafa glæsilegar byggingar, glæsilegan búnað og glæsileg námsgögn en allt héngi þetta á kennarastarfinu, hvernig það væri metið, hver menntun kennara væri og starfsumbúnaður. Þar erum við ekki bara að horfa á launin — og ég fór yfir þetta í ræðu minni á þingi Kennarasambandsins á dögunum — heldur líka að skólarnir búi þannig að kennurum að þeir geti haft áhrif og haft ákveðið sjálfdæmi um það hvernig þeir stýra vinnu sinni. Miðað við þær umræður sem þar voru er ég bjartsýn á að náðst geti breytingar í þá áttina, og að til mikils sé að vinna.

Þar talaði líka breskur fræðimaður, frá University College í London, og var í raun með sömu skilaboð. Þetta er mikilvæg starfsstétt og það skiptir máli að búa vel að henni í launum og það skiptir líka máli að hún hafi áhrif á starfsumhverfi sitt. Ég vildi bara nefna þetta í lokin. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta en þakka fyrir umræðuna. Ég veit að þetta mál fer til vandaðrar meðferðar hjá hv. menntamálanefnd.