139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur o.fl.

87. mál
[17:00]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ég mun fara betur í málið í heild sinni sem er kannski ekki mjög stórt, en úr því að það er komið á þennan stað í þingstörfunum tel ég að við ættum að gera á því breytingar sem skipta virkilega máli. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í hv. viðskiptanefnd, ég og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, leggjum til að sá þáttur verði tekinn út úr hlutverki orkuveitunnar sem fór inn eftir litla umræðu á sínum tíma eftir því sem ég best veit, þannig að orkuveitan, þetta stóra og öfluga fyrirtæki, gat farið í allra handa starfsemi sem var ótengd kjarnastarfsemi hennar.

Um það urðu miklar deilur á vettvangi borgarstjórnar og orkuveitan fór í fjarskiptarekstur, hún fór í Línu.Net og Tetra Ísland og síðan átti að fara í sumarbústaðarekstur sem var að vísu stöðvaður af okkur sjálfstæðismönnum. Farið var í risarækjueldi, ljósmyndabanka og hörverksmiðju og allt milli himins og jarðar sem ég held að hvarfli ekki að neinum manni í dag að halda fram að hafi verið skynsamlegt. Mér heyrist vera samstaða um það innan núverandi borgarstjórnar að hverfa frá þessu og einbeita sér að kjarnastarfseminni. Það ættu því að vera hæg heimatökin að samþykkja tillögu okkar, fulltrúa sjálfstæðismanna.

Ég vil gjarnan heyra sjónarmið hv. þingmanns um hvernig honum líst á tillöguna.