139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur o.fl.

87. mál
[17:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef kynnt mér þá breytingartillögu sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson vísar til og það er hárrétt hjá þingmanninum, hún svarar ágætlega þeim fyrirætlunum sem núverandi stjórn orkuveitunnar hefur miðað að, þ.e. að þrengja starfsemi þessa mikilvæga fyrirtækis utan um kjarnastarfsemina.

Aftur á móti er í raun horft í allt aðra átt en menn ætla að fara í því tiltekna frumvarpi sem við erum með til umfjöllunar. Það fjallar um þessi tvö atriði, varðandi starfandi stjórnarformann annars vegar og hins vegar jafnrétti kynjanna í stjórnum fyrirtækja og það eru hvort tveggja afar mikilvæg mál. Ég tel að þetta sé áhugaverð hugmynd en hún þyrfti að fá sérstaka skoðun og meðhöndlun sem slík og verðskuldar það að mínu mati.