139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur o.fl.

87. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er málið þannig statt að þingið þarf að taka afstöðu til þess. Meiri hluti hv. viðskiptanefndar hefur metið það þannig að ekki eigi að bíða eftir því að stjórn orkuveitunnar og borgarstjórn komi fram með stefnumótun sína varðandi þá þætti sem tilgreindir eru í tillögunni þrátt fyrir að það muni breyta litlu í sjálfu sér miðað við stöðuna í orkuveitunni í dag. En við erum hins vegar komin á þann stað að það þarf að taka afstöðu til þessarar tillögu. Ég held að þó að það sé sjálfsagt að ræða málið frekar sé ekkert í því sem fólk þekkir ekki. Hvert mannsbarn þekkir sögu orkuveitunnar hvað þetta varðar.

Það liggur alveg fyrir að ríkisstjórnarmeirihlutinn þarf að taka afstöðu til þessarar tillögu. Við leggjum hana fram og þess vegna kalla ég eftir afstöðu hv. þingmanns til tillögunnar því að um hana verða greidd atkvæði. Ef eitthvað er óljóst eða ef hv. þingmaður vill koma einhverjum sjónarmiðum á framfæri er kjörið fyrir okkur að taka þá umræðu hér og mikilvægt að fara yfir málið. Þetta er mjög skýr tillaga. Ég hef flutt hana áður á þinginu og beitt mér á öðrum vettvangi fyrir því að þessi leið verði farin. Að mörgu leyti tókst það og það bjargaði ýmsu en hefði betur tekist alveg. Það hefði verið ódýrara fyrir borgarbúa og betra fyrir fyrirtækið. Þess vegna vil ég vita hvernig hv. þingmaður og hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna ætla að bregðast við þessari tillögu.