139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi.

71. mál
[17:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir hans orð í garð þessarar þingsályktunartillögu og þessa nefndarálits. Ég ítreka, og það kemur fram í orðum hans líka, þá sátt sem er í nefndinni eftir að hafa farið vel í gegnum þetta. Menn sáu þá hversu gott mál hér er á ferðinni, mikilvægt mál, kostar í raun litla peninga — þó að 13 millj. kr. séu töluverðir peningar þá eru það litlar upphæðir miðað við hvað getur verið undir. Ég hygg að úr ræðustól á Alþingi verði eftir einhver ókomin ár jafnvel vitnað í þau orð sem hér eru sögð, um það sem þarna þarf að rannsaka vegna þess að ég er viss um að þessar rannsóknir munu verða jákvæðar miðað við það sem vísindamenn og aðrir hafa verið að skrifa og segja, og ég hef gert mér far um að lesa upp á síðkastið allt það sem ég hef komist í hvað þetta varðar.

Hv. þingmaður fjallar um það hér að það er vilji löggjafans, Alþingis, að gera þetta. Og hvernig fylgjum við því eftir? Það er ekki alltaf sem framkvæmdarvaldið tekur við því sem frá okkur kemur, því miður, og þess vegna er það ágæt brýning frá hv. þingmanni til hv. formanns fjárlaganefndar, Oddnýjar G. Harðardóttur, sem hér situr, að við sem löggjafarvald höfum þetta jafnvel í huga og höfum það í huga við afgreiðslu fjáraukalaga, að ég tali ekki um fjárlaga fyrir árið 2012. Það er grundvallaratriði vegna þess að þó að við sjáum eftir hverri milljón og þurfum að horfa í hverja milljón í þeim erfiðleikum sem nú er við að glíma þá þurfum við eftir sem áður að forgangsraða. Þar sem það getur hugsanlega, eftir 5, 10, 15 eða 20 ár, gefið þessari þjóð miklar tekjur ef meiri auðlindir finnast þarna þá eru það smáaurar í sambandi við það sem við gætum vænst. Þetta eru líka smáaurar í samanburði við það sem við þurfum að gera á Drekasvæðinu og liggur vel við vegna þess að þetta er nánast við strendur landsins.