139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

534. mál
[17:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að í sjálfu sé ágætt að tillaga af þessu tagi skuli koma fram á þingi og þau efnisatriði sem í henni er að finna eru þannig vaxin að eðlilegt er að þau séu tekin til umfjöllunar.

Ég get hins vegar ekki á þessu stigi lýst yfir stuðningi við þá afdráttarlausu skoðun sem kemur fram af hálfu flutningsmanna að flytja beri Landhelgisgæsluna til Reykjanesbæjar. Ég er ekki þeirrar skoðunar og hef ekki sannfæringu fyrir því að það sé endilega rétt niðurstaða þó ég útiloki það ekki. Ég útiloka það ekki en ég er að minnsta kosti ekki kominn á þann stað að ég sé tilbúinn til að fallast á það.

Ég tek undir margt í framsöguræðu hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur, t.d. að þörf er á að fara yfir starfsemi og skipulag Landhelgisgæslunnar og koma henni í framtíðarhúsnæði þannig að hún búi við aðstæður sem eru nauðsynlegar fyrir starfsemi hennar. Ég get vel tekið undir að margt er ekki í nægilega góðu horfi hvað það varðar. Ég held að mikilvægt sé að þetta verði gert og að óvissu í þessum efnum verði eytt sem fyrst. Þess vegna gæti ég stutt að athugun færi fram og skoðað væri frá hagkvæmnissjónarmiðum en fyrst og fremst út frá þörfum Gæslunnar sjálfrar hvort flutningur suður til Reykjanesbæjar mundi henta starfsemi hennar og þjóna sem best því starfi sem þar fer fram en ég verð að hryggja hv. flutningsmenn tillögunnar með því að ég er ekki enn þá sannfærður.

Ég vildi nefna þetta strax við fyrri umræðu um þetta mál og treysti því auðvitað að yfir málið verði farið á vettvangi nefndarinnar sem fær það til umfjöllunar. Um leið er mikilvægt að við höfum í huga að Landhelgisgæslan hefur auðvitað búið við kröpp kjör og krappar fjárveitingar. Í raun og veru tel ég að jafnvel sé mikilvægara eins og staðan er í dag að huga að því hvernig við getum stuðlað að því að Landhelgisgæslan geti fullnægt þeim lágmarkskröfum sem við gerum til starfsemi af því tagi áður en við förum að velta fyrir okkur flutningi. Kannski getum við gert hvort tveggja en ég vildi að minnsta kosti nefna við þessa umræðu að Landhelgisgæslan er í verulegri fjárþröng svo það sé sagt eins og það er og hefur orðið að bjarga sér frá mánuði til mánaðar og ári til árs með allt of naumum fjárframlögum miðað við þá mikilvægu starfsemi sem hún innir af hendi. Þennan þátt þurfum við að efla.

Þriðja atriðið sem ég ætla að nefna í þessu samhengi er að auðvitað er orðið dálítið knýjandi að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. innanríkisráðherra fari að sýna á einhver spil varðandi framtíðarfyrirkomulag starfseminnar sem áður heyrði undir Varnarmálastofnun. Marglofað hefur verið að skýra þau mál og það margsvikið þannig að enn er fyrir hendi gríðarlega mikil óvissa um hvar sú starfsemi lendir. Þær ráðstafanir sem hafa verið gerðar frá því að stofnunin var lögð niður hafa allar verið bráðabirgðaráðstafanir og margir mánuðir eru liðnir síðan ráðuneytið ætlaði að leggja fram stefnumótun um hvernig málunum yrði hagað til framtíðar. Í sjálfu sér er margt sem knýr á í sambandi við störf ráðherra og starfsemi ráðuneyta. En afsakanirnar fyrir því að draga þetta mál meira á langinn hljóta að fara að verða ansi rýrar því lagabreytingin sem samþykkt var síðasta sumar tók gildi um áramótin og enn sér ekki fyrir endann á því hvernig starfseminni sem tilheyrði hinni horfnu stofnun á að vera fyrir komið til framtíðar. Það er hneykslismál út af fyrir sig sem verður rætt betur við síðara tækifæri.