139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

534. mál
[17:36]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Þar sem ég er einn af flutningsmönnum þessarar tillögu þarf ekki að koma á óvart að ég kem upp fyrst og fremst til að lýsa stuðningi mínum við hana og vona að hún fái skjótan og öruggan framgang innan þings.

Það er rétt sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði að þetta tengist að sjálfsögðu niðurlagningu Varnarmálastofnunar. Þó ég sé ekki sammála því sem fram kom í orðum míns góða félaga Birgis Ármannssonar um skort á stuðningi við tillöguna þá er ég sammála honum í því að ótækt er að ekki liggi fyrir stefnumótun í þessum málum. Verklagið við þetta mál allt hefur verið algerlega óásættanlegt.

Ég ætla ekki að endurtaka röksemdirnar á bak við þessa tillögu sem frummælandi hennar, hv. þm. Oddný Harðardóttir, fór yfir. Hún gerði það vel og ég tek undir orð hennar. Það sem mig langar að impra á hér er nauðsyn þess að klára þetta mál. Ég er ósammála því að gera þurfi fleiri og fleiri hagkvæmniathuganir á þessu. Þær liggja fyrir. Mín skoðun er sú að komið sé að tíma ákvarðana.

Ríkisstjórnin hélt fund í Víkingaheimum í nóvember á síðastliðnu ári þar sem innanríkisráðherra var falið að láta kanna hagkvæmni þess að flytja Gæsluna til Suðurnesja. Í þeirri yfirlýsingu voru gefin fyrirheit til Suðurnesjamanna um að nú ætti eitthvað að fara að gerast í þessum málum. Nú er 11. apríl og enn hefur ekkert gerst þannig að við erum alveg jafnóviss um niðurstöðu í málinu eins og við vorum þá. Tímafrestur sem gefinn var á þeim fundi var að hagkvæmniathuguninni skyldi lokið fyrir 1. febrúar. Þegar 1. febrúar rann upp hafði nefndin sem átti að gera þá athugun ekki einu sinni verið skipuð. Henni var gefinn tími til 15. mars. 15. mars rann upp og þá átti þetta að liggja fyrir á næstu dögum. Nú er 11. apríl og ekkert hefur gerst og það er algerlega óásættanlegt því á meðan bíða Suðurnesjamenn, núverandi starfsmenn Gæslunnar og fyrrverandi starfsmenn Varnarmálastofnunar í óvissu um framtíð sína, óvissu sem hefur ríkt í mörg ár og er algerlega óviðunandi. Tilgangur okkar þingmanna Suðurkjördæmis sem öll sem eitt styðjum þessa þingsályktunartillögu og ég fagna því mjög að um hana ríkir alger samstaða meðal þingmannahópsins, er ekki síst að koma málinu af stað, koma því upp úr hjólförunum sem það er í í innanríkisráðuneytinu svo að niðurstaða geti legið fyrir sem allra fyrst.

Varðandi það hvort þetta er hagkvæmt eða ekki þá er það rétt sem hv. þm. Birgir Ármannsson fór yfir að Landhelgisgæslan hefur ekki verið ofalin á fjármunum, hvorki núna upp á síðkastið eða áður. Það er ekki neinum einum flokki eða neinni einni stefnu að kenna. Fjármagn hefur skort til þessa málaflokks. En þess vegna er einmitt mikilvægt að klára sameininguna og fyrst farið var í þann leiðangur að leggja Varnarmálastofnun niður þarf Gæslan að taka yfir þau verkefni sem Varnarmálastofnun hafði á höndum. Þá á Gæslan möguleika á að komast inn í innkaupakerfi Atlantshafsbandalagsins vegna verkefna sem innt yrðu af hendi fyrir bandalagið og í samvinnu við það. Það gæti sparað stórfellda fjármuni við eldsneytisinnkaup og önnur opinber innkaup þannig að það eitt gæti breytt miklu í þessu dæmi öllu fyrir utan það sem búið er að nefna og fara yfir og ég ætla ekki að endurtaka eins og húsakost og annað.

Ég vil, virðulegi forseti hvetja okkur í þinginu til að afgreiða tillöguna til að hæstv. innanríkisráðherra komist ekki lengur upp með að draga þetta mál á langinn. Það þarf að taka afstöðu til þess, af eða á. Ef ráðherrann ætlar sér ekki að gera þetta væri hreinlega betra fyrir hann að klára málið með þeim hætti, þó að ég mæli ekki með þeirri niðurstöðu, frekar en að viðhalda óvissunni. Hún er óásættanleg, virðulegur forseti, og tilgangur okkar með þessari tillögu er að eyða henni og koma málinu í farsæla höfn.