139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að gerð kjarasamninga.

[15:04]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég ætlaði beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra en hún hefur gert það að reglu að vera aldrei viðstödd hér á mánudögum og þess vegna beini ég fyrirspurn minni til hæstv. fjármálaráðherra.

Ég vil inna hann frétta af framlagi ríkisstjórnarinnar til gerðar kjarasamninga. Nú virðist sem kjarasamningar á Íslandi séu að lenda í algerum rembihnút. Í hverri vikunni sem líður eykst harkan og nú stefnir í að boðað verði til allsherjarverkfalls ef ekki rætist úr í þessum mánuði. Stóra spurningin er sú og mér finnst orðið tímabært að það sé rætt í þinginu: Hvað er það sem ríkisstjórnin hefur verið að ræða við aðila vinnumarkaðarins? Hvað hefur ríkisstjórnin fram að færa vegna þeirra krafna sem uppi eru af hálfu ASÍ annars vegar og af hálfu SA hins vegar? Við þekkjum það sem ríkisstjórnin lofaði árið 2009 og stóð síðan ekki við, sem á endanum leiddi til þess að stöðugleikasáttmálanum var sagt upp, en við höfum fengið afskaplega litlar fréttir af því hvað ríkisstjórnin er tilbúin til að gera til að skapa það umhverfi sem kallað er eftir svo hagvöxtur geti hafist á ný hér á landi. Allar hagvaxtarspár sem berast eru ófullnægjandi, það verður að segjast eins og er. Þær skapa ekki raunhæfan grundvöll undir þriggja ára kjarasamning þar sem laun munu hækka ár eftir ár. Það er ekki grundvöllur til staðar miðað við þær hagvaxtarspár sem núna liggja á borðum.

Er það kannski svo að hæstv. fjármálaráðherra sé sammála innanríkisráðherranum sem telur mikilvægast að lækka laun þeirra sem best hafa það en beina ekki sjónum sínum að þeim sem lægst hafa kjörin og leiðum til að skapa forsendur fyrir vaxandi kaupmætti þeirra?