139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að gerð kjarasamninga.

[15:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ætli það séu ekki almennt erfiðar aðstæður sem íslenskt þjóðarbú hefur gengið í gegnum síðastliðin tvö og hálft ár sem valdi því að það er auðvitað lítið svigrúm til staðar hvort heldur er af hálfu hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga eða atvinnulífsins til að taka á sig miklar launahækkanir. Engu að síður er ljóst að það er brýnt að skila kjarabótum eftir því sem kostur er, ekki síst til hinna tekjulægstu, og auðvitað ekki við því að búast að þeir sem hafa verið án kauphækkana í tvö til tvö og hálft ár sætti sig við að fá ekki eitthvað í sinn hlut.

Það eru að mínu mati hvort tveggja öfugmæli að halda því fram að reynslan af fyrri samskiptum í þessum efnum hvað tengist svokölluðum stöðugleikasáttmála hafi verið til þess að hræða menn frá því að halda áfram á þeirri braut. Þvert á móti var það mikið gæfuspor að það tókst saman um kjaramálin á miðju ári 2009 og það tryggði hér ákveðinn stöðugleika einmitt á meðan hagkerfið var að fara í gegnum erfiðasta tímann. Og það er algerlega rangt að þar hafi eitthvað verið svikið af hálfu ríkisstjórnar. Tvö mál stóðu út af og ollu ágreiningi. (Forseti hringir.) Það var skötuselur og starfsendurhæfingarmál sem strönduðu í frumvarpi inni í þinginu. (Gripið fram í.) Það þýðir ekki (Forseti hringir.) fyrir hv. þm. Bjarna Benediktsson að setja málin upp með þeim hætti sem hann gerir hér, (Forseti hringir.) að færa alla ábyrgð af öllu sem gerist yfir á núverandi ríkisstjórn, hvort sem það er bankahrunið á sínum tíma eða sú staðreynd að aðilar (Forseti hringir.) vinnumarkaðarins hafa ekki náð saman um kaup og kjör.