139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

eftirlit með skiptastjórum þrotabúa.

[15:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er eflaust rétt að ég hefði átt að beina þessari fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra en úr því að ég er farinn að spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er best að klára bara samtalið við hann.

Það er náttúrlega öllum ljóst að við erum að setja nýtt met, að mér skilst, í gjaldþrotum fyrirtækja hér á Íslandi, met sem við Íslendingar viljum að sjálfsögðu alls ekki hafa slegið eða tala um sem met. En úr því að hæstv. innanríkisráðherra er í salnum bið ég hann, ef hann heyrði ekki fyrirspurn mína áðan, að skoða hana þegar hann kemur í ráðuneyti sitt.

Það sem ég er að velta fyrir mér, virðulegi forseti, er þetta: Er möguleiki á að kröfuhafar þrotabúa hafi ekki tök á eða fram hjá þeim fari einhverjar eignir sem kunna að vera í búunum? Þá er ég að tala um almenn bú venjulegra fyrirtækja sem eiga kannski húseignir á Flórída eða einhvers staðar sem rata ekki til skiptastjóra. (Forseti hringir.) Ég vil vekja athygli á að það þarf að skoða.