139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

orðalag ályktunar sameiginlegrar nefndar Íslands og Evrópuþingsins.

[15:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Virðulegi forseti. Satt skal segja, nei, þá hef ég haft annað að gera. Ég hef látið það eftir mér að vera ekki á kafi ofan í þessu enda aðrir í þeim verkum. Við skiptum dálítið með okkur verkum og þeir þingmenn sem standa að þessu samstarfi eru náttúrlega best inni í þeim efnum. Ég skal hins vegar gera það ef þar eru á ferðinni einhver þau stórkostlegu tímamót sem hafa farið fram hjá mér í önnum dagsins.

Jafnvel þó að menn hafi gert einhverja ályktun sé ég ekki að hún bindi hendur stjórnvalda eða marki stefnu fyrir þeirra hönd, það sé ég ekki. Það er alveg ljóst að þetta mál er í því ferli sem Alþingi sjálft setti það í og unnið er samkvæmt þeirri leiðsögn sem nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar veitir. Ég á aðild að ráðherranefnd um Evrópumál og passa rækilega upp á að menn haldi sig við það ferli og verði hvergi staðnir að verki í því að gefa eitthvað eftir fyrir fram eða stytta sér leið. Augljóslega væri þetta ferli (Forseti hringir.) ekki margra fiska virði ef menn stæðu ekki algerlega að því í samræmi við það sem Alþingi hefur samþykkt hvað (Forseti hringir.) varðar að flagga hagsmunamálum okkar og standa fast á rétti okkar í þessum viðræðum.