139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

launakjör í Landsbanka Íslands.

[15:25]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni hlýleg orð í garð Landsbankans. Það er greinilegt hvaða hugur stendur af hennar hálfu til þessa stærsta banka þjóðarinnar í eigu ríkisins.

Eigendastefna ríkisins leggur línur hvað varðar framgöngu opinberra fyrirtækja eða fyrirtækja á fjármálamarkaði varðandi m.a. launamál. Þar er það mjög rækilega skrifað að gæta beri að hófsemi. Það er ekki ætlunin að slíkar stofnanir séu leiðandi í neinum tilvikum í launaþróun en samkeppnisfærar eftir því sem kostur er. Af nýlegum atburðum stendur til að endurskoða m.a. og hnykkja enn þá frekar á þessu orðalagi því að það er ekki ætlunin að fjármálastofnanir í eigu ríkisins fari á undan í þeim efnum og reyni að taka upp gamla siði sem mega missa sig.

Hitt er staðreynd að það vantar verulega mikið upp á að launakjör bankastjóra Landsbankans séu sambærileg við einkabankana og svo miklu meiru munar en mann hefði órað fyrir satt best að segja. Þar er ekki við Landsbankann að sakast, sem lýtur ákvæðum kjararáðs, heldur hversu vel hinir bankarnir telja sig hafa efni á því að borga sínum mönnum.

Fjármálaeftirlitið er að móta reglur um kaupauka eða bónusgreiðslur í fjármálafyrirtækjum þar sem hert verður á þeim og ætlunin er að koma í veg fyrir að það endurtaki sig sem var við lýði í þeim efnum, en þar fyrir utan getur ríkið að sjálfsögðu í gegnum eignarhald og eigendastefnu sína séð til þess að þessir hlutir séu í sómasamlegu horfi.

Þeim félögum sem Landsbankinn á og hyggst skrá á markað kem ég ekki alveg fyrir mig en mér finnst hins vegar ágætt að þau félög séu skráð og fari þannig leið sína út í lífið að þau séu fyrst skráð í kauphöll og verð myndist á þeim á markaði.

Það var ákvörðun Landsbankans að halda sig við nafnið Landsbankann, enda búið að vera stanslaus ruglingur í gangi síðan þessar tvær nafngiftir voru uppi. (Forseti hringir.) Ég er ósammála því að það sé endilega aðferðin til þess að endurheimta traust og trúnað að skipta um kennitölu eða nafn heldur hitt að sanna (Forseti hringir.) sig með góðum verkum og sýna að bankinn sé trausts verður.