139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

[15:30]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég hef lagt það í vana minn að glugga í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það er margt merkilegt í henni. Stundum rekst maður á brandara og það er erfitt að stilla sig um að grípa niður í kaflann um úrlausn á skuldavanda fyrirtækja þar sem stendur: „Markmið ríkisstjórnarinnar er að aðgerðir gagnvart öllum smærri og meðalstórum fyrirtækjum liggi fyrir í síðasta lagi í septemberlok.“ — Hér vantar að sjálfsögðu ártal.

En ég ætlaði ekki að ræða þetta. Ég ætlaði að ræða um kaflann sem heitir Fiskveiðar vegna þess að við bíðum öll eftir frumvarpi ríkisstjórnarinnar um fiskveiðistjórnarkerfi. Hér stendur, með leyfi forseta, undir fyrirsögninni Þjóðareign og mannréttindi:

„Með sérstöku ákvæði í stjórnarskrá verði undirstrikað að fiskstofnarnir umhverfis landið séu sameign þjóðarinnar. Úthlutun aflaheimilda er tímabundinn afnotaréttur og myndar ekki undir neinum kringumstæðum eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildunum.

Bregðast þarf frekar við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, meðal annars með því að gæta atvinnufrelsis og að tryggja að jafnræðis verði gætt við úthlutun afnotaréttarins og aðgengi að hinni sameiginlegu auðlind.“

Síðast stendur, í e- og f-lið um endurskoðun laga um fiskveiðar:

„e. skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar

f. leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka.“

Ég vil því spyrja ráðherrann hvort það frumvarp sem nú stendur til að leggja fram uppfylli þessi markmið sem sett eru fram í stjórnarsáttmálanum.