139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

[15:32]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Já, að sjálfsögðu er það ætlunin. Að sjálfsögðu ætla stjórnarflokkarnir ekki að standa að framlagningu frumvarps nema það uppfylli meginlínur þeirra breytinga sem þeir vilja sjá og hafa barist fyrir á þessu kerfi — og hv. þingmaður fór ágætlega yfir ýmis aðalatriði þessa máls og ég þakka fyrir það — þ.e. að ganga frá því í eitt skipti fyrir öll og slá það í gadda, með ákvæðum í stjórnarskrá og skýrri útfærslu í lögum, að um sameiginlega eign þjóðarinnar sé að ræða; að þau réttindi sem menn fá séu tímabundin, afmörkuð afnota- eða nýtingarréttindi en ekki bein eða óbein eign af neinu tagi sem menn geti fénýtt meira og minna án takmarkana eins og viðgengist hefur í núverandi kerfi. Þeim markmiðum ætla menn sér að sjálfsögðu að ná.

Sama gildir um það að koma til móts við þau sjónarmið og auðvitað mörg fleiri sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna tókst á við á sínum tíma, þ.e. aðgengi nýrra aðila að kerfinu, að þetta sé ekki lokaður klúbbur um aldur og ævi. Þegar hefur verið stigið skref í því, t.d. með strandveiðum þar sem allir sem uppfylla tilskilin réttindi, eiga bát með haffærniskírteini og kunna með hann að fara geta þá farið á sjó yfir sumartímann. Með öðrum slíkum og fleiri ráðstöfunum er væntanlega meiningin að opna leiðir inn í kerfið og búa um þróun á því þannig að eðlileg nýliðun geti orðið, endurnýjun, uppeldi á nýjum sjómönnum sem þarf alltaf að vera. Væntanlega gerist það þá í framtíðinni eins og íslenskur sjávarútvegur hefur yfirleitt alltaf þróast, hann hefur þróast neðan frá í gegnum útgerð minni skipa sem síðan verða að stækka í höndunum á dugandi mönnum.

Ég vona að þegar frumvarpið verður komið saman og hingað inn á þing sjái hv. þingmaður að það er verið að reyna, eins og kostur er, að mæta þessum markmiðum. (Forseti hringir.) Þetta er auðvitað flókið og viðamikið mál en ekki stendur til að veita afslátt af þeim grundvallarsjónarmiðum sem hafa verið leiðarljósið í þessari vinnu.