139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

Vaðlaheiðargöng.

655. mál
[15:40]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt, sem fram kemur í máli hv. þm. Marðar Árnasonar, að ég hef í tímans rás iðulega gagnrýnt sambland opinberra og einkaframkvæmda enda er það svo að þær framkvæmdir í samgöngumálum sem verið hafa á vinnsluborði hafa verið hugsaðar þannig að þær séu einvörðungu á vegum opinberra aðila. Vaðlaheiðargöng skera sig úr að því leyti að þarna koma fleiri aðilar að þó ríkið sé með meirihlutaeign og þeir sem koma aðrir að málinu hafi fyrst og fremst samfélagsleg markmið uppi en ekki gróðasjónarmið. Það er grundvallaratriði í mínum huga.

Það er rétt, sem fram kom hjá hv. þingmanni, að hugsunin er sú að Vaðlaheiðargöng verði sjálfbær í efnahagslegu tilliti, þ.e. rísi undir sjálfum sér, verði einvörðungu fjármögnuð með vegatolli. Það er hugsunin. Nú er undirbúningsvinna fyrir útboð vel á veg komin. Það mun koma í ljós hver tilkostnaðurinn verður, bæði hvað varðar framkvæmdina sjálfa, hvað varðar fjármagnið, á hvaða kjörum það fæst og síðan mun það koma í ljós hver umferðin verður. Það mun ráðast af vegtollunum hve há gjöldin verða þannig að það eru ýmsir óljósir þættir en málið er í ágætum farvegi.

Það er eitt mannvirki í landinu sem er fjármagnað með gjöldum af þessu tagi, það eru Hvalfjarðargöngin. Það er rétt, sem fram kom hjá hv. þingmanni, að við Hvalfjarðargöngin er hægt að velja aðra leið. Það er hægt að aka fyrir Hvalfjörðinn, velja á milli þess að aka Hvalfjarðargöngin eða aka fyrir Hvalfjörð. Hv. þingmaður spyr núna hvað mundi gerast ef heiðin lokast og menn eigi ekki annarra kosta völ en fara í gegnum Vaðlaheiðargöng. Við höfum haft þann hátt á að þótt Hvalfjörðurinn lokist krefjumst við gjalds fyrir að aka í gegnum göngin og ég geri ráð fyrir að sá háttur yrði einnig hafður á varðandi Vaðlaheiðargöngin. Ég get því ekki svarað eins og hv. þingmaður var að hvetja til að svarið yrði já. Ég hygg að svo yrði ekki, ég hygg að svarið verði nei.