139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

Vaðlaheiðargöng.

655. mál
[15:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er nú rétt að taka fram að það eru fleiri hjáleiðir hugsanlegar fram hjá Vaðlaheiðargöngum en Víkurskarðið eitt. Það er hin sögufræga leið um Dalsmynni og Fnjóskadal (Utanrrh.: Og …) og fótfráir menn gætu auðvitað tölt yfir Gönguskarð ef því væri að skipta ef þeir eiga leið í innanverðan Fnjóskadal.

Ég vil láta það álit mitt koma fram að ég held að gerð Vaðlaheiðarganga nú sé bæði þjóðhagslega, umhverfislega og byggðalega geysilega góð ráðstöfun. Á tímum hækkandi olíuverðs og mikils flutningskostnaðar er u.þ.b. það besta sem við getum gert að stytta leiðir og taka út þröskulda eins og Víkurskarðið sannanlega er, ótrúlega erfitt satt best að segja í þjónustu þar sem það er þó ekki meiri fjallvegur en það er, til verulegra vandræða í samgöngum og flutningum alla vetur, jafnvel milda vetur eins og verið hafa að undanförnu. Heimamenn hafa komið mjög myndarlega að þessu verki með söfnun hlutafjár og sýnt þannig hug sinn og þeir kvarta ekki undan því að vegtollur verði látinn borga niður verkið, enda munu þeir fá sín Vaðlaheiðargöng en kannski er álitamál um sumar aðrar (Forseti hringir.) framkvæmdir sem menn vilja fá án þess að borga fyrir þær.