139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

Vaðlaheiðargöng.

655. mál
[15:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég er ekki andstæðingur Vaðlaheiðarganga, enda er ég einn af þeim sem muna gamla Vaðlaheiðarveginn, að vísu sællar minningar, en ég skil algjörlega þörf manna á góðum samgöngum í þessum landsparti.

Vaðlaheiðargöngin eru hins vegar ekki númer eitt í röð arðsamra framkvæmda. Þau eru heldur ekki númer eitt í röð þeirra framkvæmda sem gætu bjargað mannslífum. Það er ekki þannig en samt stöndum við í þeim framkvæmdum, og það er vegna þess að það er farið fram hjá þessu venjulega kerfi og búin til einkaframkvæmd, hversu opinber sem hún er í alla enda. Þess vegna þarf þessi einkaframkvæmd að lúta lögmálum einkaframkvæmdarinnar, hún þarf að geta staðist samkeppni.

Þess vegna er það ekki nógu gott svar hjá ráðherranum við þessari einföldu og augljósu spurningu að ríkið ætli sér ekki að láta þessi göng reka sig — sem ríkið á reyndar meiri hluta í — með þessum venjulegu lögmálum einkabransans, heldur eigi það að vera öfugt. Og það er enn þá verra fyrir þá skuld, forseti — nú hverfur hann og nú kemur hann í ljós aftur, eins og sagt var um prestinn þegar hann var að lesa úr Biblíunni — að við vitum hver ákveður hvort Víkurskarð er mokað eða ekki á vetrum. Það er Vegagerðin, það er fyrirtæki hæstv. innanríkisráðherra sem ákveður það.

En hver er það sem hefur hagsmuni af því að allir sem hægt er fari í gegnum þessi göng sem menn efast um að beri sig? Jú, það er líka Vegagerðin, fyrirtæki hæstv. innanríkisráðherra.

Það þarf betra svar við þessu, forseti. Kannski er rétt að innanríkisráðherra fái meiri tíma til að hugsa það og það verði borið fram skriflega og ítarlegra hér (Forseti hringir.) á næstu dögum þannig að innanríkisráðherra fái bæði betri tíma til að hugsa sig um og geti leitað ráða í flokki sínum og meðal starfsmanna (Forseti hringir.) sinna um þetta sérstaka efni.