139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

Vaðlaheiðargöng.

655. mál
[15:54]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hver hefur hag af því ef Víkurskarð lokast vegna snjóa að þröngva mönnum til að aka í gegnum Vaðlaheiðargöng? Það er fyrirtæki hæstv. innanríkisráðherra, Vegagerðin, sem hefði hag af því.

Svona hugsar ekki Vegagerðin og svona hugsum við almennt ekki. Við erum að stuðla að samgöngubótum í landinu og viljum standa vel að þeim málum. Það vill Vegagerðin að sjálfsögðu gera líka með hagsmuni landsmanna í (Gripið fram í: Það kostar að …) huga.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson velta upp mikilvægum spurningum. Ef viðskiptahugmyndin gengur ekki upp, ber þá ekki ríkissjóður tapið? Jú, það er alveg rétt að því leyti sem lánin eru á ábyrgð ríkissjóðs. Þess vegna þarf að vanda vel til þessara mála. Við förum út í þessa framkvæmd með það í huga að hún verði algerlega efnahagslega sjálfbær, það gerum við.

Nú höfum við stigið það skref að opna á tilboð. Við fáum þá upplýsingar um framkvæmdakostnaðinn og í framhaldinu kostnaðinn á fjármagninu sem við fáum til að standa straum af þessum framkvæmdum. Síðan verða næstu skref ákveðin með hliðsjón af því sem þar kemur fram. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmönnum, þetta eru forsendur sem þarf að hafa í huga þegar frekari ákvarðanir eru teknar.

Síðan er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, Merði Árnasyni, að það sem um er að tefla þegar framkvæmdir á Suðurlandi, Vesturlandi og Reykjanesbrautinni eru annars vegar eru svokallaðar flýtiframkvæmdir (Forseti hringir.) sem eru teknar út fyrir sviga. Það er forgangsraðað, hv. þm. (Forseti hringir.) Ásbjörn Óttarsson. Það er gert samkvæmt vegáætlun og fjárlögum en hér erum við að tala um (Forseti hringir.) flýtiaðgerðir sem þarf að fjármagna með sértækum hætti eins og um hefur verið rætt.