139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

rannsókn efnahagsbrota o.fl.

767. mál
[15:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Allt frá haustinu 2008 hefur ríkt um það allgóð samstaða í þjóðfélaginu, m.a. á hinu háa Alþingi, að nauðsynlegt væri að rannsaka orsakir bankahrunsins, bæði með almennum hætti og greina atburðarás og orsakir, leita sannleikans, eins og það var orðað svo hátíðlega hér í þinginu, sem og að rannsaka sérstaklega og tryggja eðlilega málsmeðferð vegna hugsanlegra lögbrota sem tengjast hruninu.

Þessum rannsóknum var þegar árið 2008 beint inn í tvo mismunandi farvegi. Annars vegar var, eins og hv. þingmenn þekkja, stofnuð sérstök rannsóknarnefnd til þess að leita sannleikans, eins og það var orðað, og hins vegar var stofnað embætti sérstaks saksóknara sem lögum samkvæmt rannsakar grun um saknæmt og refsivert athæfi sem tengist hruninu. Lögin um embættið voru samþykkt fyrir jólin 2008 og síðan þá hefur þingið einkum komið að starfsemi þess með því að auka fjárveitingar til þess í samræmi við tillögur frá embættinu sjálfu og dómsmálaráðuneytinu, ýmist við afgreiðslu fjárlaga eða fjáraukalaga og raunar með nokkrum öðrum lagabreytingum sem samþykktar hafa verið, allt í þeim tilgangi að efla embættið og auka möguleika þess á því að sinna lögbundnu hlutverki sínu.

Allar ákvarðanir sem hafa verið teknar með þessum hætti í þinginu hafa verið samþykktar í góðri sátt og þrátt fyrir að deilt hafi verið um margt í þessu samfélagi og ekki síst á hinum pólitíska vettvangi hefur ekki verið ágreiningur um að búa svo að þessum rannsóknum að þær næðu tilgangi sínum. Ég endurtek að hér hefur enginn ágreiningur verið um það. Í ljósi þessa vöktu athygli mína og ýmissa fleiri ummæli hæstv. innanríkisráðherra í umræðum um vantraust á ríkisstjórnina á dögunum.

Þau ummæli voru svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Vilja menn kosningar til að fá nýja verkstjórn á rannsókn efnahagsbrotanna eða vilja menn hafa þau í okkar forsjá? Þar er ég verkstjórinn. Ég heiti mönnum því að við munum standa vörð um þessa rannsókn. Ég hef áður sagt að ef við leiðum ekki til lykta þessa rannsókn mun íslenska þjóðin hafa móralska timburmenn í 300 ár. Við ætlum að ljúka þessu verki og við höfum staðið vel að þessari rannsókn. Það eru ýmsar brotalamir sem við viljum laga, en við lögum þær ekki betur með aðkomu Sjálfstæðisflokksins að Stjórnarráðinu að nýju. Við höfum fengið nóg af slíku.“

Í ljósi þessara ummæla beini ég til hæstv. ráðherra fyrirspurn sem liggur fyrir á þingskjali og lýtur að því hvernig hæstv. ráðherra skilgreinir verkstjórnarhlutverk sitt í sambandi við rannsókn efnahagsbrota annars vegar almennt og hins vegar sérstaklega í tengslum við rannsókn á bankahruninu. Í öðru lagi spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann telji að deilt hafi verið um viðbrögð Alþingis og stjórnvalda í tengslum við rannsókn efnahagsbrota í kjölfar bankahrunsins, hvort um þær hafi verið deilt á vettvangi stjórnmálanna, t.d. um fjárveitingar eða lagaheimildir.