139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

rannsókn efnahagsbrota o.fl.

767. mál
[16:00]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og hv. fyrirspyrjanda er vel kunnugt er í íslenskri stjórnskipan á því byggt að ráðherrar fari hver á sínu sviði í reynd með æðstu yfirstjórn stjórnsýslunnar og fari með yfirstjórn þeirra stjórnarmálefna sem undir þá heyra. Enda þótt málefni ákæruvaldsins heyri undir innanríkisráðuneytið samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands nýtur ákæruvaldið lögum samkvæmt fulls sjálfstæðis í starfi sínu og á almennt fullnaðarmat um það hvort grundvöllur sé fyrir því að halda rannsókn áfram eða hætta henni.

Fyrirspyrjandi spyr um skilgreiningu mína á verkstjórnarhlutverki ráðherra í sambandi við rannsókn efnahagsbrota. Í umræðum á Alþingi 13. apríl sl. kom fram í máli mínu að ég lít á það sem hlutverk mitt að standa vörð um rannsókn efnahagsbrota og að hún verði leidd til lykta, að þar væri ég verkstjórinn. Af minni hálfu er alveg skýrt að hlutverk innanríkisráðherra í rannsókn efnahagsbrota lýtur fyrst og fremst að stjórnsýslulegum þáttum og þeim laga- og rekstrarramma sem ákæruvaldinu er búinn. Ég hef sem ráðherra ekki haft og mun aldrei hafa nein afskipti af rannsókn eða saksókn í einstökum efnahagsbrotamálum. Það er hlutverk þeirra sem fara með ákæruvaldið í þeim málum að meta að lokinni rannsókn hvort sækja eigi sakborning til sakar eða ekki.

Minni ég á að frá því að lög um embætti sérstaks saksóknara voru sett á árinu 2008 hefur verið leitast við að treysta þann lagagrundvöll sem embættið starfar eftir og fjárveitingar til þess auknar. Um framgang þeirra lagabreytinga sem kynntar hafa verið á lögum um embætti sérstaks saksóknara og auknar fjárveitingar til embættisins hefur verið víðtæk sátt á Alþingi og utan þess. Það er hins vegar eðlilegt að ég reifi þessi mál þegar til umræðu er í þinginu tillaga um vantraust á ríkisstjórnina, þar á meðal mig sem innanríkisráðherra, og þá er ekkert óeðlilegt að ég spyrji hvort menn vilji kalla aðra til þessa verkstjórnarhlutverks sem snýr einvörðungu að stjórnsýslunni, lagarammanum og öðru slíku, en ekki á nokkurn hátt að einstökum málum.