139. löggjafarþing — 114. fundur,  2. maí 2011.

rannsókn efnahagsbrota o.fl.

767. mál
[16:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra svarið og tek undir þau sjónarmið sem hann reifaði varðandi hlutverk hans og annarra sem gegna embætti innanríkisráðherra á hverjum tíma um rannsókn efnahagsbrota sem og annarra brota. Ákæruvaldið er og á að vera sjálfstætt, það er mikilvægt atriði í réttarríkinu að hið pólitíska vald sé ekki með afskipti af rannsóknum einstakra mála á sama hátt og það er hlutverk hins pólitíska valds að tryggja lagarammann og nægar fjárveitingar og aðstöðu til þess að ákæruvaldið geti sinnt hlutverki sínu. Um þetta erum við hæstv. ráðherra greinilega sammála og það er mikilvægt og gott að það kom fram hér af hans hálfu.

Hið sama má segja um þann hluta svars hans sem laut að rannsókn efnahagsbrota í kjölfar bankahrunsins. Eins og hann rakti og ég minntist á í upphafsræðu minni hefur þar ekki verið ágreiningur heldur þvert á móti samstaða, bæði í ráðherratíð hæstv. núverandi innanríkisráðherra sem og forvera hans, hæstvirtra fyrrverandi ráðherra Rögnu Árnadóttur og Björns Bjarnasonar. Þau mál sem hafa farið í gegnum þingið hafa verið afgreidd í samkomulagi og án ágreinings sem varða þetta svið og vonandi náum við eins saman um a.m.k. eitt mál sem þegar er komið inn í þingið og varðar þetta sérstaka embætti.

Í ljósi þess að við hæstv. ráðherra erum sammála um þessa þætti verða ummæli hans í vantraustsumræðunni auðvitað nokkuð ankannaleg.