139. löggjafarþing — 115. fundur,  2. maí 2011.

lokafjárlög 2009.

570. mál
[16:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir skörulega ræðu og mjög mikilvægt mál sem hann var að tala um. Það þarf sterk bein til að þola góða daga og það sýndi sig þegar Sjálfstæðisflokkurinn gerði þau mistök þegar hann réði því sem sumir segja einn að láta velferðarkerfið vaxa úr böndum.

Hv. þingmaður nefndi að hjá Hafró hafi orðið 15,4% aukning á kostnaði. Á sama tíma og landsmenn horfa upp á lækkandi laun hjá sjálfum sér í atvinnulífinu leyfir ein stofnun sér að hækka kostnað um þetta mikið.

Ég held að meginvillan í þessu sé sú að menn virða ekki hvað þetta heitir, þetta heita nefnilega fjárlög og fjáraukalög. Þetta eru lög sem gilda í landinu fyrir alla, líka fyrir þá sem fara eiga eftir þeim. Stjórnarskráin segir í 41. gr., frú forseti:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Þeir menn sem fóru þarna umfram brutu stjórnarskrána, ekki bara lög. Þá kemur spurningin: Hvar liggur ábyrgðin? Hvar liggur ábyrgðin, frú forseti? Er þetta ábyrgð viðkomandi ráðherra og hvað gerist með hann? Við höfum rætt hérna um landsdóm, það er spurning. Þá er líka spurningin um forstöðumenn viðkomandi stofnana, hvaða ábyrgð bera þeir? Og af því að tími minn er að renna út ætla ég að koma inn á það í seinna andsvari að það gilda nefnilega lög um fjárreiður ríkisins, 49. gr. sem tekur á því.