139. löggjafarþing — 115. fundur,  2. maí 2011.

lokafjárlög 2009.

570. mál
[16:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar til að spyrja hann, af því að hann gat um að hér ætti að koma skýrsla: Verður það mögulega þannig að fjárlaganefnd kalli fyrir viðkomandi ráðherra og viðkomandi forstöðumenn og bendi á ábyrgð þeirra samkvæmt 49. gr. laga um fjárreiður ríkisins þar sem stendur að þeir beri ábyrgð á því að fjárhagsskuldbindingar þeirra séu í samræmi við lög, þ.e. fjárlög og heimildir?

Svo er önnur spurning, en nú er það þannig að það má ekkert greiða út úr ríkissjóði nema með heimild í fjárlögum og fjáraukalögum: Er það ekki í rauninni brot á stjórnarskrá sem menn eru að ræða hér þegar verið er að breyta útgjöldum eftir á, að þegar Alþingi er búið að setja ákveðinn ramma um umfangið breyti menn bara rammanum?

Síðan er spurningin um hraða ríkisbókhaldsins. Væri ekki eðlilegt að ríkisbókhald fyrir árið 2009 hefði legið fyrir 15. janúar 2010?