139. löggjafarþing — 115. fundur,  2. maí 2011.

lokafjárlög 2009.

570. mál
[16:55]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér þó að þessi liður heiti andsvar, ég er kannski ekki í andsvari en ég ætla að leyfa mér að nota þessa mínútu sem ég hef til að segja það að ég er sammála öllu því sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson segir um nauðsyn þess að breyta ríkisrekstrinum, framkvæmd fjárlaga og að ríkisstofnanir og ráðuneyti haldi sig innan ramma fjárlaga.

Ég held að það sé líka mikið til í því sem hann talar um að við þurfum að hugsa um hvort ekki þurfi að breyta þessu með sértekjurnar sem gefa náttúrlega þeim stofnunum sem hafa þær tækifæri til að ákveða rekstur sinn miklu meira sjálfar en aðrar stofnanir.

Ég held, virðulegi forseti, að þetta komi stjórn og stjórnarandstöðu ekki mikið við, ég held að við getum verið öll sammála um það að þetta eru ósiðir sem hafa ríkt hér um árabil og kannski alltaf. Ég fagna því að við Ásbjörn Óttarsson séum saman í liði í því að breyta þessu og hlakka til samstarfsins.