139. löggjafarþing — 115. fundur,  2. maí 2011.

lokafjárlög 2009.

570. mál
[17:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Mér fannst tilhlýðilegt að koma hingað upp og taka undir orð hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar og þá hvatningu frá honum til okkar þingmanna að hafa meiri áhuga á fjármálum og fjárlagagerð og hvernig við skilum því verkefni síðan af okkur til þingsins í formi fjáraukalaga og svo lokafjárlaga. Auðvitað ætti umræða um fjáraukalög vegna ársins 2009 að hafa farið fram á árinu 2009, í nóvember, og lokafjárlögum fyrir 2009 hefði átt að vera lokið í janúar eða febrúar 2010 með alla þá fjármálastjóra sem eru yfir ríkisstofnunum hringinn í kringum landið. Auðvitað ætti það að vera þannig að á hverjum tíma — og það er grundvöllur þess að geta haft eftirlit með fjármálum, hvort sem er heimilis- eða ríkisstofnunar — sé bókhaldið fært frá einum degi til annars, þannig að í lok mánaðar sé hægt að fara yfir hvort menn séu innan þess fjárlagaramma sem Alþingi hefur skammtað þeim og hvort líklegt sé að menn þurfi að breyta einhverju til að komast í gegnum árið.

Í landinu eru tvö stjórnsýslustig. Sveitarfélögin á Íslandi fara með um 30% af valdinu í fjármálum, ef við skiptum því þannig upp, og ríkisvaldið um 70%. Við höfum haft talsverðan áhuga á því hér í þingsal í gegnum árin og áratugina að setja sveitarstjórnum skýran ramma um það hvernig þær eigi að haga sér. Ég held að það hafi verið til bóta. Á síðasta ári settum við fjármálareglur, við settum sérstakar eftirlitsreglur þegar fjármál færu úr böndunum, ef skuldsetning yrði of mikil, menn þyrftu að skila inn bæði ársreikningum og áætlunum með ákveðnum fyrirvara og fyrir ákveðnar dagsetningar. En þegar kemur að okkur sjálfum — þ.e. þinginu, og eftirliti okkar með framkvæmdarvaldinu, ríkisvaldinu, 70 prósentunum — stöndum við okkur afleitlega. Þá eru slíkir frestir ekki settir inn. Ef þeir eru inni eru þeir brotnir og við gerum ekkert í því. Þetta gengur ekki. Ég styð því þá hvatningu frá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að við tökum okkur taki hér í þinginu til að geta breytt framkvæmdarvaldinu, eftirliti þess og síðan þá eftirliti þingsins.

Það kom fram í rannsóknarskýrslu Alþingis, og reyndar í skýrslum sem voru unnar af hálfu Alþingis áður í sambandi við eigið eftirlitshlutverk, að eftirlitshlutverk þingsins er of lélegt. Við þurfum að bæta það. Sjálfstæði þingsins er ekki nógu öflugt, við þurfum að bæta það. Það gerist ekki ef við stöndum hér og tölum, það er alveg rétt. Við þurfum að sýna þetta í verki.

Ég held að það hafi komið fram, sem svar við fyrirspurn minni í haust, að ríkisábyrgðir væru um 1.300 milljarðar, engin smátala. Við ætluðum í Icesave-málinu að bæta 750 milljörðum ofan á það, 50% hækkun, eins og ekkert hefði í skorist. Við ræddum það aldrei hér í þingsal hvers lags stærðir þetta eru. Ég held að fæstir hafi gert sér grein fyrir því hvaða ábyrgðir við værum að setja á ríkisvaldið.

Ég vildi því fyrst og fremst koma hingað upp og taka undir ádrepu þingmannsins og hvetja okkur öll hér í þinginu til að standa okkur betur í þessu. Auðvitað verðum við að fá framkvæmdarvaldið til þess, fjármálastjórana í fyrirtækjunum, forstöðumenn stofnananna, það verða allir að taka þátt í þessu. Það verða allir að bera ábyrgð. Þeir sem síðan fara fram úr þeim ramma sem þar eru settir verða að axla þá ábyrgð sem þeim ber. Það þýðir að smátt og smátt mun ábyrgðarkeðjan færast upp. Að lokum er það þá ráðherra, framkvæmdarvaldið, sem ber ábyrgð á því hvernig farið er með það fjármagn sem þingið deilir út. Ég held kannski að ein af ástæðunum fyrir því að menn hafa ekki tekið á þessu sé sú að það sé ákaflega þægilegt að vinna þetta allt með handarbakinu og löngu eftir að máli skiptir hver niðurstaðan verður. Lokafjárlög 2009 í maí 2011 hljómar náttúrlega eins og brandari. Ég held að við ættum að heita því hér í dag að við munum breyta þessu strax á þessu ári og að lokafjárlög 2010 verði ekki afgreidd í maí 2012.