139. löggjafarþing — 115. fundur,  2. maí 2011.

ávana- og fíkniefni og lyfjalög.

573. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem hér um ræðir, frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni og lyfjalögum, hefur verið í meðferð hv. heilbrigðisnefndar. Nefndin er öll sammála um að afgreiða frumvarpið og stendur öll að því.

Þær breytingar sem hér eru á ferðinni eru á þann veg að verið er að færa eftirlit og undanþágu frá ákvæðum um innflutning á ávana- og fíkniefnum frá velferðarráðuneyti yfir til Lyfjastofnunar. Heilbrigðisnefnd telur að stofnunin sé vel búin til að sjá um slíka afgreiðslu og hafi verið tímabært að taka þá ákvörðun að færa þessar leyfisveitingar yfir til Lyfjastofnunar.

Eins er hér ákvæði um gjaldtöku af þeim leyfisveitingum. Það er í takt við eðlilega stjórnsýslu, bæði hér og erlendis, sem tekið er mið af. Þar sem umræða hefur verið lítil um frumvarpið — þegar góð sátt er um mál eru oft ekki miklar umræður — vil ég að það komi fram að þetta er eitt af þeim málum sem full samstaða er um.

Lagt er til að við afgreiðslu þessa frumvarps hér á Alþingi öðlist lögin þegar gildi. Ég óska Lyfjastofnun því velfarnaðar með afgreiðslu þessa nýja málaflokks og annað sem Lyfjastofnun hefur til afgreiðslu. Ég tel brýnt að fylgst sé með því að sú vinna sem bætist við Lyfjastofnun íþyngi stofnuninni ekki fjárhagslega og að fylgst verði með því að gjaldtaka fyrir leyfin standi undir kostnaði.