139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar -- fundur nefndar þingmanna og Evrópuþingsins o.fl.

[14:04]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tel óhjákvæmilegt að fram fari annað hagkvæmnismat á því verkefni sem hér er fjallað um. Eftir að hafa lesið minnisblað Deloittes um málið dylst það engum að því er verulega ábótavant í veigamiklum atriðum. Þar er bara miðað við rekstur eins og hann er núna en óbreyttur rekstur er valmöguleiki sem að mínu mati kemur ekki til greina. Flugfloti Landhelgisgæslunnar er rekinn við óhentugar og ófullnægjandi aðstæður í gámaeiningum á bílastæði við Reykjavíkurflugvöll. Þar er ekki hægt að stækka við þannig að sá lágmarksviðbúnaður, fjórar þyrlur, sem allir eru sammála um að eigi að vera til staðar, kemst ekki fyrir í núverandi húsnæði. Landhelgisgæslan er rekin í a.m.k. þrenns konar húsnæði og við mjög þröngan húsakost. Það þarf að taka saman kostnaðinn við að reka Landhelgisgæsluna með þeim hætti og kanna hver sparnaðurinn gæti orðið af að koma allri starfseminni fyrir í einu húsi sem stendur autt og tilbúið til notkunar suður í Keflavík.

Það er því óhjákvæmilegt að mínu mati að gert verði nýtt hagkvæmnismat þar sem allir þessir þættir verði teknir saman og líka sú framtíðarsýn sem ég held að allir séu sammála um að við höfum mótað um starfsemi Landhelgisgæslunnar, ekki síst með tilliti til t.d. aukinna verkefna sem gætu komið í kjölfar aukins samstarfs vegna nýrra siglingaleiða um norðurskautsslóðir. Ég held að menn verði einfaldlega að horfa á stöðuna eins og hún kemur til með að vera á næstu árum og áratugum. Það er ekki skynsamlegt að taka ákvörðun í þessu máli til (Forseti hringir.) skamms tíma heldur verður að horfa á heildarmyndina til lengri tíma.