139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar -- fundur nefndar þingmanna og Evrópuþingsins o.fl.

[14:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku, þann 27. apríl, var haldinn sameiginlegur fundur þingmannanefndar Alþingis og Evrópusambandsins þar sem m.a. voru lögð fram drög að ályktun sem góðu heilli voru ekki afgreidd vegna mikillar andstöðu þingmanna sem sátu fundinn.

Ýmislegt fróðlegt getur að líta í þessum drögum. Í 15. tölusetta atriði kemur t.d. fram í lauslegri endursögn minni að Ísland er hvatt til þess að undirbúa mögulega aðlögun að stefnu Evrópusambandsins í landbúnaðar- og byggðamálum og hefja vinnu við að setja á laggirnar nauðsynlegar stofnanir sem þurfa að vera til reiðu þegar til aðildar kemur til að hægt verði að hrinda stefnumálum á þessu sviði í framkvæmd og njóta þess stuðnings sem ESB-aðildin hefur í för með sér. Þetta dulmál þýðir á mæltu máli að verið er að hvetja til þess að undirbúa að setja á laggirnar svokallaða greiðslustofu eða greiðslustofnun landbúnaðarins.

Nú hefur komið mjög skýrt fram að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er mjög mótfallinn því að vinna að undirbúningi þessarar stofnunar, sem við vitum að er forsendan fyrir því að Ísland geti orðið aðili að Evrópusambandinu. Ég vil því spyrja hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, sem situr í utanríkisnefnd og átti sæti á þessum fundi, hver hennar afstaða er til þeirra tillagna sem komu fram og eru auðvitað ekki einhliða frá Evrópusambandinu. Hér er um að ræða tillögur sem eiga m.a. rót sína að rekja til íslenskra stjórnvalda, a.m.k. þeirra forustumanna úr þingliði stjórnarinnar sem fara með þessa málaflokka. Hér er um að ræða mjög stefnumarkandi yfirlýsingu sem var þó ekki samþykkt, stefnumarkandi áform algjörlega í blóra við vilja fagráðherrans og í blóra við vilja margra þingmanna (Forseti hringir.) Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þess vegna spyr ég hv. þingmann út í þetta mál.