139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar -- fundur nefndar þingmanna og Evrópuþingsins o.fl.

[14:08]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir þessa fyrirspurn. Það ber að ítreka að þetta eru drög að ályktun sem voru ekki samþykkt þannig að þau komu ekki til efnislegrar umræðu á fundinum. Vissulega virðast þessi drög hafa verið skrifuð í Brussel vegna þess að þau eru lituð af því að vera samin þar, rétt eins og þegar lönd sækja um aðild að Evrópusambandinu þá er það gefið sem forsenda að fyrir liggi skýr vilji til að ganga inn. Svo er ekki í tilfelli Íslands. Það liggur ekki fyrir skýr vilji til að ganga í sambandið jafnvel þótt viðræðuferlið sé hafið. Hins vegar liggur fyrir skýrt umboð frá Alþingi um að fara í þetta ferli.

Ég geri og gerði mjög alvarlegar athugasemdir við ýmislegt sem kom fram í þessum drögum enda voru þau ekki samþykkt. Ég tel það vera bæði verkefni nefndarinnar og okkar allra að skýra út fyrir ESB og þeim sem starfa í Brussel hinn pólitíska raunveruleika á Íslandi þar sem mikil andstaða er við aðild. Mikil umræða hefur einmitt verið um hvaða breytingar þurfi að fara í áður en til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur og hvort það sé lýðræðislegt að fara í slíkar breytingar áður en fólk er búið að segja já eða nei við ESB. En það er auðvitað í anda þeirrar þingsályktunartillögu sem var samþykkt í þinginu í sambandi við þetta ferli að allt (Forseti hringir.) sé opið og gagnsætt og því sjálfsagt að kortleggja nákvæmlega bæði þessar breytingar og aðrar sem hugsanlega eru í farvatninu og tengjast beint eða óbeint (Forseti hringir.) þessu ferli. Það er okkar verkefni að gera það.