139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar -- fundur nefndar þingmanna og Evrópuþingsins o.fl.

[14:11]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram var í síðustu viku haldinn fundur sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins í Þjóðmenningarhúsinu. Á þeim fundi kom margt býsna merkilegt fram eins og þau ályktunardrög sem hér hafa verið nefnd. Þau voru merkileg fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi vegna þess að þau virðast hafa verið samin í Brussel og send til staðfestingar á Alþingi Íslendinga, sem er ákaflega niðurlægjandi fyrir þjóðþingið í þeim aðildarviðræðum sem fara nú fram en ekki síður vegna þess að þegar maður les þessi ályktunardrög kemur fram að Evrópusambandið leggur áherslu á og setur þrýsting á ríkisstjórnina að klára ýmis þau mál sem hér hafa verið til umfjöllunar og eru umdeild, svo sem sjávarútvegsmálin, landbúnaðarmálin, sameiningu ráðuneyta og mál sem snúa að fjármálamarkaðnum, og því er fagnað sérstaklega af hálfu Evrópusambandsins að ný fjölmiðlalög hafi verið sett.

Það vekur athygli við lestur þessara ályktunardraga hversu innvígt og innmúrað Evrópusambandið virðist vera stefnu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. Í ályktunardrögunum er því sérstaklega fagnað hversu opið og gegnsætt aðlögunarferlið á Íslandi er. Við sem fylgjumst með því hér á landi upplifum ekki þann veruleika vegna þess að sá fundur sem sameiginlega þingmannanefndin hélt var lokaður. Engum var boðið á þann fund, hvorki já- og nei-hreyfingum, hagsmunaaðilum í sjávarútvegi eða landbúnaði né öðrum þeim sem láta sig þessi mál varða. Það er athyglisvert í ljósi þess að samkvæmt starfsreglum nefndarinnar (Forseti hringir.) eiga fundir hennar að vera opnir.

Mig langar til þess að spyrja hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur að því hverju þessi leynd og þetta pukur sætir.