139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar -- fundur nefndar þingmanna og Evrópuþingsins o.fl.

[14:22]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að víkja að öðru máli en þeirri stórundarlegu umræðu sem fer fram um sameiginlegan fund þingmanna Evrópusambands og Íslands í síðustu viku, fund sem ég sat. Það er rannsóknarefni hvernig hægt er að snúa út úr því sem þar fór fram og afvegaleiða umræðuna eins og hér er gert.

Ég ætla að nefna sérstaklega tvær mikilsverðar ákvarðanir sem hafa verið teknar í menntamálum á allra síðustu dögum og skipta miklu máli í því ástandi sem við glímum nú við. Önnur er tillaga, sem er búið að samþykkja, um 50 millj. kr. aukaframlag til Keilis sem er lofsverð og mikilvæg ákvörðun. Á örfáum árum hefur sá skóli orðið að einna markverðustu menntasprotunum í okkar kerfi, sérstaklega fyrir tilstilli háskólabrúarinnar sem veitir þeim sem ekki hafa lokið framhaldsskólaprófi færi á að koma inn í frumgreinadeild og fullnuma sig og komast þaðan inn á háskólabraut. Glæsilegur háskóli á Ásbrú og mjög ánægjulegt að þessi viðbótarfjárveiting til hans náðist fram.

Hitt málið er að sjálfsögðu miklu stærra í sniðum en það er ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að öllum umsækjendum um nám í framhaldsskóla, að 25 ára aldri, sem uppfylla skilyrði verði tryggð skólavist nú í haust. Þetta er gríðarlega stórt og mikilvægt mál en þess má geta að 800 manns yfir 18 ára aldri var vísað frá framhaldsskólunum í fyrra. En allir sem sækja um, 25 ára og yngri, komast inn í skólana núna. Þarna er verið að fjárfesta í menntakerfinu fyrir 7 milljarða kr. á árunum 2011–2014 með þátttöku Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það skiptir vissulega miklu máli að atvinnuleitendur á þessum aldri komist til að mennta sig í staðinn fyrir að vera vísað frá skóla.

Þessum tveimur málum vildi ég fagna sérstaklega og færa það í tal við formann menntamálanefndar að þetta (Forseti hringir.) er vegvísir að því sem koma skal í menntakerfinu og skiptir gífurlega miklu máli.