139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar -- fundur nefndar þingmanna og Evrópuþingsins o.fl.

[14:29]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að bregðast við og taka undir sjónarmið sem fram komu í máli hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar um menntamál áðan. Full ástæða er til að vekja athygli á þeim málum sem hann reifaði, t.d. auknum stuðningi við Keili á Suðurnesjum, sem hefur verið að fylla upp í ákveðið gat í menntakerfi okkar með sérstakri áherslu á frumgreinanám og reyndar fjarnám sem er sérlega öflugt í þeim skóla — og gleðilegt að það hillir undir að jákvæð lausn finnist á fjárhagsvanda þeirra. Það eru svo sem margir skólar sem þurfa að þreyja þorrann og góuna um þessar mundir og því fagna ég því sérstaklega að ríkisstjórnin hefur fundið leið, í góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, til að opna framhaldsskólana fyrir öllum sem vilja. Þeim ungmennum undir 25 ára aldri sem hafa áhuga á að sækja framhaldsskóla í haust, og reyndar á næstu missirum, verður gert það kleift og er verið að lyfta grettistaki í þeim efnum. Eins og hv. þingmaður fór yfir hefur allt að 800 nemendum verið vísað frá, reyndar voru þeir heldur færri á síðasta hausti, þetta voru tölurnar fyrir 2009, en samt í kringum 500–600 nemendur.

Það sem er að gerast með þessu, sem ég vil sérstaklega vekja athygli á, er að við erum að átta okkur á því, kannski vonum seinna, að til að ná krafti og verulegri sókn í atvinnumál okkar þurfum við að tengja betur saman það sem við erum að gera í menntakerfinu og áherslurnar í atvinnumálum. Þegar við erum með vinnumarkað sem kallar sérstaklega eftir því að fleiri komist í starfsnám, og fleiri pláss í verk- og tæknigreinum séu fyllt með íslenskum ungmennum, er mikilvægt að menntakerfið taki mið af þeim skilaboðum. Þarna eru því mjög jákvæð teikn á lofti sem ástæða er til að fagna.