139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[14:47]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (U):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um landsdóm, nr. 3/1963, með síðari breytingum. Auk mín eru flutningsmenn hv. þingmenn Höskuldur Þórhallsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir og Margrét Tryggvadóttir.

Lagt er til að við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi, með leyfi frú forseta:

„Dómarar sem eiga sæti í landsdómi þegar Alþingi hefur samþykkt málshöfðun gegn ráðherra og varamenn þeirra skulu ljúka meðferð þess máls þrátt fyrir að kjörtímabil þeirra sé á enda.“

Enn fremur er gert ráð fyrir því í lögunum að þau taki þegar gildi.

Frumvarp þetta er flutt af nefndarmönnum í svonefndri saksóknarnefnd Alþingis. Einn nefndarmanna, hv. þm. Birgir Ármannsson, stendur ekki að flutningi málsins. Málið er afrakstur funda í saksóknarnefnd og í samráði við fleiri aðila.

Í 2. gr. laga um landsdóm er fjallað um fjölda dómara í landsdómi og hvernig þeir eru valdir. Er þar m.a. gert ráð fyrir því að átta dómendur af 15 séu kosnir af Alþingi til sex ára í senn. Alþingi kaus síðast aðalmenn í landsdóm 11. maí 2005. Með frumvarpi þessu er lagt til að við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein þar sem tekið verði af skarið um það að dómarar sem eiga sæti í landsdómi þegar Alþingi hefur samþykkt málshöfðun gegn ráðherra og eftir atvikum varamenn þeirra skuli ljúka meðferð þess máls þó svo að kjörtímabil þeirra sé á enda. Með slíku fyrirkomulagi verður ekki rof á umboði dómenda meðan mál er þar til meðferðar. Þetta er í samræmi við meginreglur réttarfars um milliliðalausa málsmeðferð. Það er horft til þessarar meginreglu sem er meginregla um réttaröryggi. Breytingin snýr einvörðungu að formi en ekki efnisatriðum landsdómslaganna. Þetta ákvæði á sér fyrirmyndir við hliðstæðar aðstæður. Ég nefni þegar breyting var gerð á lögum um Félagsdóm, 48. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, þar sem fjallað er um dómara í Félagsdómi, en þar segir að dómarar sem hafa byrjað meðferð mála skuli ljúka því þótt kjörtímabil þeirra sé á enda. Ekki er þetta eina dæmið. Ég get einnig vísað til sambærilegra ákvæða í 197. og 198. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, 164. og 165. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og ákvæða til bráðabirgða I og II í lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Hefðbundin meðferð mála, einfalt og sjálfgefið mál að mínu mati sem ég tel rétt að Alþingi afgreiði hratt og örugglega.

Ég vil taka fram að á haustþingi var flutt frumvarp af hæstv. innanríkisráðherra sem laut að breytingum á lögum um landsdóm. Það snerti mun fleiri greinar. Hér er eingöngu tekið upp eitt efnisatriði en þó mjög breytt í orðalagi.

Lagt er til að málinu verði vísað til allsherjarnefndar að lokinni 1. umr.