139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[14:52]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hv. þm. Atla Gíslason að því hvort einhverjir aðrir en þeir fjórir nefndarmenn í saksóknarnefnd Alþingis sem eru flutningsmenn að þessu frumvarpi hafi komið að samningu þess eða hafi átt eitthvert frumkvæði að því að það er lagt fram með þessum hætti. Tilefni þessarar spurningar ætti að vera þekkt. Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að það frumvarp sem hv. þingmaður vék hér að og var áður lagt fram á yfirstandandi þingi af hæstv. innanríkisráðherra, um breytingar á lögum um landsdóm, var til komið á grundvelli tillagna sem forseti landsdóms hafði sent ráðuneyti hæstv. ráðherra með bréfi þann 21. október 2010. Í andsvari hæstv. innanríkisráðherra við mig í 1. umr. um það frumvarp kom fram að saksóknari Alþingis hafði einnig haft afskipti af samningu þess frumvarps.

Af þeirri ástæðu langar mig til að fá upplýst hjá hv. þingmanni, sem er 1. flutningsmaður þessa máls, hvort saksóknari Alþingis, Sigríður Friðjónsdóttir, eða forseti landsdóms, hafi á einhverju stigi undirbúnings þessa máls komið að því að einhverju leyti, lagt til að það yrði lagt fram í þeirri mynd sem hér kemur fram eða með einhverjum öðrum hætti.