139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[15:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að um þetta mál var fullkominn ágreiningur. Það segir sína sögu um stöðu landsdómslaganna að um þetta veigamikla atriði skyldi rísa ágreiningur. Hv. þm. Atli Gíslason segir að þær málsmeðferðarreglur sem vísað er til tryggi með einhverjum hætti réttaröryggi. Við sem höfum fylgst með þessu máli, sem íslenska þjóðin almennt hefur gert, höfum ekki fengið þá mynd að sú gjörð hafi lýst af einhverri þrá eftir réttaröryggi eins og gengið hefur verið fram í þeim efnum þar sem saksóknarinn hefur krukkað í málið með innanríkisráðherranum, og þeim sem ásökuninni er beint gegn var ekki skipaður verjandi fyrr en eftir dúk og disk. Það er ekki hægt að segja að í þessu máli hafi menn lagt grunn að einhverju réttaröryggi. Það er alveg sama hversu mikið suss kemur (Forseti hringir.) frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, það breytir ekki staðreyndum málsins. Sussið úr henni breytir því ekki.