139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[15:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að nýta mér lögfræðiþekkingu hv. þingmanns og spyrja hann hvað gerist ef stjórnarmeirihlutinn stendur sig ekki sem skyldi, eins og maður þarf því miður að óttast, og Alþingi kýs ekki nýjan landsdóm. Hvernig lítur það út gagnvart umheiminum og gagnvart réttarríkinu ef lögum er hér breytt til að geta dæmt einn mann og svo kjósa menn ekki nýjan landsdóm. Hvað gerist þá? Ég velti þessu bara upp sem lögfræðilegu spursmáli. Er þá enginn landsdómur til eða getur sá landsdómur sem við erum að framlengja núna tekið við í neyðartilfelli ef Alþingi skyldi ákveða að ákæra einhvern af hæstv. ráðherrum? Hvernig lítur landslagið út ef menn sýna sama hraða í ákvörðunartöku og hingað til þar sem öll mál eru veitt með afbrigðum og aftur afbrigðum og allt gert á síðustu stundu?