139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[15:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er þekkt að auðveldara er að spyrja en svara og ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæt svör og sérstaklega að koma inn á þátt Mannréttindadómstóls Evrópu í þessu máli ef hugsanlega til kemur.

Það sem ég áttaði mig ekki alveg á var að nú verður kjörinn nýr landsdómur og hann tekur þá væntanlega við nýjum málum en ekki sá gamli. Þá eru starfandi tveir landsdómar hlið við við hlið, að mér skilst. Það væri gaman að heyra hvað gerist ef einhver árekstur verður á milli þessara tveggja landsdóma, ef annar dómurinn dæmir mál á einn veg og hinn dæmir sambærilegt mál öðruvísi. Nú er það talinn aðall t.d. Hæstaréttar að hann sé sjálfum sér samkvæmur, hann sé ekki ósamkvæmur í dómum sínum. Hvað gerist ef annar dómstóllinn dæmir svona og hinn dómstóllinn sem starfar við hliðina á honum dæmir hinsegin?

Svo er það náttúrlega alveg sérstakur kapítuli hvernig staðið var að ákærunni á Alþingi, þ.e. þegar fjórir ráðherrar voru ákærðir og allt það, ég vil kalla það bíó, í kringum það. Það mun örugglega verða skoðað mjög nákvæmlega þegar farið verður í gegnum allt þetta ferli vegna þess að þar voru sumir ákærðir og aðrir ekki eftir einhverjum leikreglum sem væri mjög áhugavert, held ég, fyrir stjórnmálafræðinga og aðra að kanna.