139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[15:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að margt í sambandi við þetta mál allt saman er þess eðlis að það hlýtur að vekja athygli fræðimanna á ýmsum fræðasviðum og valda þeim nokkrum heilabrotum.

Varðandi hins vegar þá stöðu sem við gerum ráð fyrir að verði ef þetta frumvarp verður að lögum munu þeir sem nú sitja í landsdómi og eiga að dæma í máli Alþingis gegn Geir Haarde halda áfram meðferð þess máls og ekki koma að öðrum. Nýr landsdómur, hugsanlega skipaður öðrum einstaklingum, við vitum það svo sem ekki, verður að öllum líkindum kjörinn í næstu viku og fær þá önnur mál til meðferðar. Auðvitað er alltaf ákveðin hætta á því að mismunandi dómstólar komist að mismunandi niðurstöðum jafnvel þó að mál virki sambærileg eða séu sambærileg, ákveðin hætta er alltaf á því. Það er galli en hjá því verður kannski seint komist. Eins geta dómstólar í sjálfu sér breytt frá fordæmum ef fyrir því eru sterk og gild rök. Dómstólar breytast auðvitað líka alltaf.

Það sem er hins vegar sérkennilegt í þessu máli og afbrigðilegt er að hér er ekki verið að fjalla um almenna lagabreytingu sem taka á til allra mála heldur er í rauninni verið að krukka í málsmeðferðarreglur og reglur vegna eins tiltekins máls. Sú breyting sem lögð er til í frumvarpinu er hins vegar miklu skárri (Forseti hringir.) en þær hugmyndir sem voru á sveimi í haust og ég rakti í framsöguræðu minni.