139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[15:44]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka bara að hér er verið að tala um meginreglu í réttarfari á Íslandi, í Evrópu og víðar um það sem kallað er milliliðalaus málsmeðferð, að sami dómari fari með mál frá upphafi til enda. Ég leitaði eftir því í janúar, febrúar og mars að frumvarpið yrði flutt áfram, 1. umr. yrði lokið, en leitaði jafnframt eftir því að það yrði einfaldað þannig að það sneri eingöngu að 1. gr. Þegar ég fór að skoða 1. gr. betur og nákvæmar taldi ég orðalagið sem er í því frumvarpi sem ég mælti fyrir í dag mun skýrara og nákvæmara. Það kann sem sé að vera umdeilt hvenær mál byrjar fyrir landsdómi. Er það við málshöfðunarákvörðun Alþingis samkvæmt 1. gr. laganna um landsdóm eða er það þegar ákæra hefur verið gefin út? Ég taldi þetta nákvæmara. Aðilar innan þingsins, þeir sérfræðingar sem leitað var til, voru sammála mér.

Ég vil líka að gefnu tilefni geta þess að saksóknari Alþingis var skipuð af Alþingi í atkvæðagreiðslu hér og mun gegna störfum sínum af sömu eljusemi og vandvirkni og henni er lagið, sinna þessu starfi af þeirri kostgæfni sem hún hefur til að bera að öllu leyti. Það hefur ekki áhrif á framgang málsins þó að hún hafi í millitíðinni verið skipuð ríkissaksóknari.