139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki hafa verið gerðar neinar sérstakar tillögur um breytingar að því er varðar meðferð á fundargerðum ríkisstjórnar. Það fer bara eftir því sem við hefur átt um þær, enda tel ég að fundargerðir ríkisstjórnar séu þess eðlis að þær þurfi að vera þannig að þær séu ekki bara opinberar eftir hvern ríkisstjórnarfund eða með einhverju stuttu millibili. Það hlýtur að þurfa að hvíla ákveðin leynd yfir fundargerðum ríkisstjórnar þannig að þær sé ekki opinberar. Það má að vissu leyti bæta, finnst mér, fundargerðir ríkisstjórnar frá því sem verið hefur, að þær verði ítarlegri en þær hafa verið og hefð er fyrir, þannig að ekki er gert ráð fyrir neinni breytingu að því er þetta varðar.

Varðandi ráðgjafa ráðherra, hvort nú séu starfandi fleiri ráðgjafar (Forseti hringir.) en heimild er fyrir, þá þekki ég það bara ekki í öllum ráðuneytum hvernig það er. Það gilda ákveðnar reglur um (Forseti hringir.) ráðningar í Stjórnarráðinu. Ég ætlast auðvitað til þess að eftir því sé farið.

Varðandi það að meiri hluti sé fyrir þessu frumvarpi, verður það bara (Forseti hringir.) að koma í ljós. Það hefur einn ráðherra skýrt andstöðu í ríkisstjórninni við þetta mál, en ég á nú von á því að víðtækur stuðningur sé við það þegar (Forseti hringir.) menn skoða þetta mál og innihald þess.