139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:48]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Svarið við síðustu spurningu hv. þingmanns er nei. Ég geri ráð fyrir að stjórnarskrárbreytingu þurfi til ef fara ætti út í það, þannig að ekki er gert ráð fyrir því. En vissulega er gert ráð fyrir þessum ráðherranefndum. Ég hef þó iðulega orðið vör við að verkefni ríkisfjármálanefndar, sem hefur starfað um nokkurn tíma, og starfaði í fyrri ríkisstjórnum, hafi verið skilgreind miklu víðara en það nokkurn tímann var. Verkefni ríkisfjármálanefndar var fyrst og fremst að fjalla um fjárlagagerð á hverjum tíma og ramma einstakra ráðuneyta o.s.frv., en ekki efnahagsmálin í víðum skilningi.