139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér kemur á óvart að hæstv. forsætisráðherra skuli halda því fram að þingmenn misskilji þetta frumvarp. Ef einhver hætta er á því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, og hæstv. ráðherra útskýrir það þá væntanlega fyrir mér á máli sem ég skil: Er það ekki þannig að forsætisráðherra sé falið það vald að skipa í ráðuneyti samkvæmt frumvarpinu? Er það misskilningur að frumvarpið feli það í sér að hæstv. forsætisráðherra skipi í ráðuneyti? Það vald er núna hjá Alþingi.

Í annan stað langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort það geti verið að ástæða þess að forsætisráðherra ákveður að fara fram með þessum hætti sé einfaldlega sú að ekki hafi verið samstaða um neitt annað í ríkisstjórninni, (Forseti hringir.) og ekki síst í ljósi þess að einn ráðherra er á móti frumvarpinu.