139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:58]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Unnið hefur verið að þessu máli í tvö ár í forsætisráðuneytinu. Ég fór mjög ítarlega yfir það í framsögu minni hve mikið samráð hefur verið haft um málið innan stjórnsýslunnar allrar, innan Stjórnarráðsins, með ráðuneytisstjórum og mörgum sem að málinu hafa komið. Þetta mál hefur fengið mjög ítarlega umræðu.

Hv. þingmaður verður að gera sér grein fyrir því, þegar hann talar um að verið sé að gefa ráðherrum eða framkvæmdarvaldinu eitthvert vald sem það ætti ekki að hafa, að það er fyrst í tíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem opnað er fyrir það að hægt sé að sameina ráðuneyti án þess að það komi fyrir þingið. Þar var opnað á það til þess að hafa þennan sveigjanleika. Sá sveigjanleiki er til staðar víða, t.d. í Danmörku, að hægt sé að sameina ráðuneyti án þess að löggjafarvald komi að því. Frumkvæðið að þessu hér á landi var í tíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þegar (Forseti hringir.) opnað var á það að hægt væri að sameina ráðuneyti með forsetaúrskurði.